Efnahags- og velferðarmál

 

1.1 Skattar til hagsbóta fyrir heildina

Ungir jafnaðarmenn telja að með skattbreytingum í tíð ríkisstjórnar félagshyggjuflokkanna hafi verið sýnt fram á að skattkerfið sé mikilvægur þáttur þegar stefnt er að jafnara samfélagi. Skattbyrðin hefur verið færð frá þeim sem minna hafa, yfir á þá sem hafa meira á milli handanna. Meirihluti borgara á Íslandi greiðir nú minni tekjuskatt en fyrir tíð núverandi ríkisstjórnar. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að lögð verði áhersla á það á næstu árum að hækka persónuafslátt.

 

1.2 Efla skatteftirlit

Ungir jafnaðarmenn telja að leggja beri áherslu á það á komandi árum að efla skatteftirlit, svo tryggt verði að menn greiði þann skatt sem þeim ber. Of auðvelt virðist vera, -og viðurkennt í samfélaginu, að skjóta undan skatti og það bitnar mest á almennum launþegum, enda væri hægt að lækka skatta ef allir myndu greiða það sem þeim ber. Með öflugara skatteftirliti má gera ráð fyrir því að meiri tekjur myndu skila sér í ríkissjóð, en þær skal síðan nýta til þess að lækka almennan tekjuskatt á launafólk.

 

1.3 Arður af auðlindunum skili sér til almennings

Ungir jafnaðarmenn fagna því að markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnuð á milli tekna og útgjalda ríkissjóðs sé að nást. Er því ekki síst að þakka að nú er gert ráð fyrir því að greitt verði sanngjarnt gjald fyrir nýtingu sjávarútvegsauðlindarinnar. Hefur ríkisstjórnin þar sýnt að mögulegt er að láta auðlindir á landinu og í hafinu í kringum það skila arði til almennings. Halda ber áfram á þeirri braut, svo almenningur á Íslandi fái notið þeirra gæða sem landið og hafið bjóða upp á, í stað þess að einungis örfáir aðilar fái að njóta þeirra.

 

1.4 Hömlur á okurlánastarfsemi

Ungir jafnaðarmenn vilja að settar verði verulegar hömlur á smálán. Smálánafyrirtæki hafa undanfarin ár nýtt sér neyð og reynsluleysi ótal einstaklinga með því að veita lán á okurvöxtum. Hefur markaðssetning þessara lána sérstaklega beinst að ungu fólki. Nauðsynlegt er að strax verði settar hömlur á þessa starfsemi. Hafa ber í huga að þessi lán falla ekki undir neina löggjöf um fjármálastarfsemi þó þarna sé um að ræða starfsemi sem getur komið einstaklingum í koll stuttu eftir að þeir öðlast fjárráð og jafnvel valdið gjaldþroti áður en þeir verða tvítugir. Samhliða því að undirbúa hömlur við þessari starfsemi verða ríki og sveitarfélög að efla fjármálafræðslu á grunn- og framhaldsskólastigi.

 

1.5 Tökum upp evru

Ungir jafnaðarmenn vilja evru. Valkostir í peningamálum Íslands eru skýrir. Sjálfstæður gjaldmiðill í höftum eða upptaka evru. Ungir jafnaðarmenn vilja að þeir sem búa á Íslandi hafi frelsi til að fara á milli landa og eiga viðskipti um alla Evrópu. Því á að vinna að inngöngu Íslands í Evrópusambandið og Myntbandalag Evrópu og að evra verði gjaldmiðill Íslands. Tryggja verður samstarf við Myntbandalagið og Seðlabanka Evrópu um upptöku evru á réttu gengi sem fyrst eftir að aðild Íslands að ESB hefur verið samþykkt.

1.6 Val um búsetuform

Ungir jafnaðamenn vilja að ungt fólk geti valið sér búsetuform sem hentar þeim. Einkaeignarfyrirkomulagið sem hefur verið allsráðandi á íslenskum húsnæðismarkaði hentar alls ekki öllum. Því verður að setja í forgang að styrkja aðra þætti húsnæðismarkaðarins. Einkaeignarfyrirkomulagið hefur ekki þróast samkvæmt markaðslögmálum, heldur vegna markvissrar stefnu stjórnvalda á Íslandi um áratugaskeið.

Það hentar ekki öllum að ráðsetja sig með húsnæðisskuldir til margra áratuga strax þegar flutt er úr foreldrahúsum. Sumir vilja sveiganleika á meðan þeir eru í námi og a.m.k. fyrstu árin á vinnumarkaði, t.d. til þess að geta ákveðið sig hvar framtíðarbúseta þeirra verður. Aðrir myndu telja það henta sér best að losna algjörlega við skuldbindingar þær sem fylgja húsnæðiseign og vera á leigumarkaði til æviloka. Tryggja verður að einstaklingar og fjölskyldur hafi val í þessum efnum, en stjórnvöld einblíni ekki um of á eitt form búsetu, þ.e. einkaeignarformið, líkt og verið hefur undanfarna áratugi.

 

1.7 Húsnæðisbætur í stað vaxtabóta og húsaleigubóta

Ungir jafnaðarmenn skora á velferðarráðherra og Alþingi að afgreiða tillögur um húsnæðisbætur sem kæmu í stað vaxtabóta og húsaleigubóta fyrir kosningar. Með þeim yrði kominn á jafn réttur borgaranna til niðurgreiðslu, hvort sem þeir kjósi að eiga sína eign sjálfir eða leigja. Samhliða þessum breytingum verður að styrkja leigumarkaðinn og stöðu húsnæðissamvinnufélaga, t.d. með því að eignir í eigu Íbúðalánasjóðs og bankanna verði beint inn í slík félög. Í framtíðinni verði hugað að því að jafna stöðuna á milli búsetuforma, enda sýnir tap Íbúðalánasjóðs undanfarinna ára að einkaeignarformið í núverandi mynd er ekki endilega hagkvæmasta búsetuformið, hvorki fyrir fjölskyldur landsins né ríkissjóð.

 

1.8 Húsnæði fyrir námsmenn

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að komið verði til móts við þá námsmenn sem þurfa að leigja á almennum markaði vegna skorts á stúdentaíbúðum.

 

1.9 Nýjar barnatryggingar

Ungir jafnaðarmenn skora á ríkisstjórnina að koma nú þegar á  nýju barnabótakerfi (barnatryggingum) og hafnar öllum tekjutenginum í nýju kerfi. Barnatryggingar skal hugsa sem tryggingu barnsins en ekki foreldranna.

1.10 Aukna nærþjónusta í heilbrigðiskerfinu

Ungir jafnaðarmenn vilja að aukin áhersla verði lögð á heilsugæsluna og hún efld. Skynsamlegasta leiðin í heilbrigðiskerfinu til sparnaðar eru markvissar forvarnir. Samfélagið í heild stendur betur þegar allir borgarar geta sótt þá heilbrigðisþjónustu sem er þeim nauðsynleg. Gjalda ber varhug við því að einkafyrirtæki taki yfir aukinn hluta af heilbrigðisþjónustu ríkisins, enda hefur ekki verið sýnt fram á að það skili sér á nokkurn hátt í betri þjónustu eða sparnaði fyrir ríkið, sem borgar á endanum meirihluta kostnaðarins.

 

1.11 Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi

Ungir jafnaðarmenn vilja gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi. Stefna skal að því að draga verulega úr komugjöldum og öðrum notendakostnaði í heilbrigðiskerfinu. Þessi gjöld bitna helst á þeim sem minnst mega við viðbótarútgjöldum, þ.e. eldri borgurum og öryrkjum. Öflugt heilbrigðiskerfi sem allir hafa aðgang að óháð fjárhagsstöðu er nauðsynlegt í þeirri samfélagsgerð sem jafnaðarmenn eiga að vinna að.

 

1.12 Tannlækningar verði hluti af almenna heilbrigðiskerfinu

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að tannlækningar fyrir alla verði hluti af almenna heilbrigðiskerfinu. Kostnaður við tannlækningar er of þung byrði fyrir marga og sýnt hefur verið fram á slæma tannheilsu Íslendinga miðað við aðrar þjóðir. Tryggja verður að tannlækningar verði öllum aðgengilegar. Ein leið að því marki er að taka skólatannlækningar upp á ný.

 

Menntun og atvinna

Réttur til náms

 

2.1 Úr vinnu í nám

Ungir jafnaðarmenn telja að allir eigi rétt á að geta tekið sér frí frá vinnu til að bæta við menntunarstig sitt. Erfitt er að koma sér af vinnumarkaði yfir í menntakerfið til að bæta samkeppnissöðu sína á vinnumarkaði. Skapa þarf tól í samfélaginu til að auðvelda brotthvarf frá vinnumarkaði yfir í skóla.

 

2.2 Ódýrara fjarnám

Til að tryggja rétt allra til náms, óháð efnahag, þarf að niðurgreiða gjöld í kvöldskóla og fjarnámi á framhaldskólastigi og hafa þau álíka öðrum skólagjöldum. Tryggja þarf stöðu þeirra sem kjósa sér óhefðbundnari námsleiðir til að tryggja jafnrétti allra til náms.

 

2.3 Greitt verði jafnt með öllum námsmönnum

Ungir jafnaðarmenn styðja kröfu Stúdendaráðs Háskóla Íslands um að ríkið greiði með öllum þeim nemendum sem stunda nám við skólann. Staðan er sú í dag að það ekki er greitt með nokkur hundruðum nemenda, en það er á skjön við hugmyndir jafnaðarmanna um opinbera háskóla.

 

2.4 Vinda ofan af skráningagjöldum

Ungir jafnaðarmenn harma hækkun skráningagjalda við Háskóla Íslands. Frekari kostnaður fyrir nemendur kemur í veg fyrir jafnrétti allra til náms. Ungir jafnaðarmenn vilja að háskólanám sé öllum aðgengilegt óháð efnahagsaðstæðum.

 

2.5 Opnari og frjálsari skólastig

Ungir jafnaðarmenn telja að efla þurfi fjölbreytni og valfrelsi við grunn- og framhaldsskóla landsins. Efla þarf starfsöryggi kennara og veita þeim svigrúm til að beita fjölbreyttari og nýstárlegri kennsluaðferðum með lýðræði, jafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi. Ungir jafnaðarmenn telja að brjóta þurfi staðlaða ramma menntakerfis með t.d meiri samvinnu milli námsstiga, brjóta stundatöfluna upp og auka val og frelsi bæði nemenda og kennara.

2.6 Auðveldari aðgangur að námsgögnum

Auðvelda þarf aðgang að námsgögnum og auka hlut rafrænna námsbóka á framhaldsskólastigi. Þá skal skoða opnari námsgagnagerð sem byggir á svokallaðri „creative commons“ hugmyndafræði.

 

2.7 Öflug námsráðgjöf

Stórefla þarf námsráðgjöf á öllum skólastigum. Tryggja þarf að námsráðgjafar hafi góða innsýn inn í mismunandi námsbrautir. Jafnframt þarf að tryggja að ekki séu of margir nemendur um hvern námsráðgjafa.

 

2.8 Lánasjóður íslenskra námsmanna

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að framfærslugrunnur LÍN sé samræmdur neysluviðmiðum Velferðarráðuneytisins og að námslán verði hækkuð svo þau nái settum viðmiðum. Jafnframt þarf að hækka frítekjumark LÍN í að minnsta kosti eina milljón króna. Einnig skal athuga möguleika á því að hluti námslána sé í formi styrkveitingar.

 

2.9 Fjárframlög til æskulýðsmála

Ungir jafnaðarmenn vilja forgangsraða betur í fjárframlögum til æskulýðsmála svo peningarnir skili sér til unga fólksins að með sem bestum hætti. Dreifa þarf fjármagni á sanngjarnan hátt til félagasamtaka og æskulýðsfélaga. Leggja skal fjármagn í að setja á laggirnar skipulagt félagsstarf fyrir ungmenni 16 ára og eldri. Byggja skal á hugmyndafræði Ungmennahúsa og styðja skal sveitafélögin og beita ungmennaráðum þeirra við mótun löggjafar.

 

Atvinna fyrir alla

2.10 Starfsnám

Ungir jafnaðarmenn vilja efla tækifæri til starfsnáms. Þar á hið opinbera að vera leiðandi í því að veita nýútskrifuðum námsmönnum tækifæri til starfsnáms í stofnunum þess. Stofna mætti starfsnámssjóð sem myndi létta með þeim stofnunum sem taka á sig starfsnema. Jafnframt mætti efla stöðu svokallaðra fyrirtækjaskóla sem gefa reyndum, óformlega menntuðum starfsmönnum kost á því að öðlast formlega viðurkenningu á reynslu sinni. Gæta skal þess að hið opinbera komi upp viðurkenndu vottunarkerfi til að tryggja sanngjarna og réttláta viðurkenningu á óformlegu námi einstaklinga.

 

2.11 Heildarstefna í markaðsetningu Íslands

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að nú þegar verði farið í mótun heildarstefnu á markaðsetningu Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar ferðamanna. Stefnan taki mið af verndun náttúrunnar og takmörkun ágangs ferðamanna að viðkvæmum náttúruperlum.  Aukin fjöldi ferðamanna er ekki markmið eitt og sér heldur að móta stefnu sem skapar gott samspil ferðamanna og sjálfbærrar nýtingar auðlinda.

Evrópu- og utanríkismál

1.1 Ísland í fararbroddi í útbreiðslu friðar

Ungir jafnaðarmenn hvetja núverandi ríkisstjórn og þær sem á eftir koma til þess að vera ávallt talsmenn friðar á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir að mannréttindi séu virt í hvívetna. Ungir jafnaðarmenn vilja alheimsfrið.

 

3.2 Áherslur í málefnum norðurslóða

Ungir jafnaðarmenn styðja áherslu stjórnvalda um aukið samstarf í málefnum norðurslóða. Stjórnvöld á Íslandi þurfa að stuðla að verndun hafsins umhverfis Ísland fyrir komandi kynslóðir. Áherslan í samstarfi ríkja á svæðinu ber því áfram að vera vernd umhverfisins, mengunarvarnir og hvernig eftirliti á svæðinu skuli háttað.

 

3.3 Þróunarsamstarf

Ungir jafnaðarmenn fagna þeirri nýju stefnu ríkisstjórnarinnar  og Alþingis að hækka fjárframlög til þróunarsamstarfs. Við krefjum ríkisstjórnina um að halda fast í þessa hækkun og halda henni áfram þar til við verðum á pari á við aðrar Norðurlandaþjóðir. Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á að starf Þróunarsamvinnustofnunnar sé á forsendum heimamanna og sé uppbygging til framtíðar.

 

3.4 Evrópusambandið

Ungir jafnaðarmenn telja að rétta leiðin til að fá botn í Evrópusambandsumræðuna sé að ljúka aðildarviðræðum og leggja samning í dóm þjóðarinnar.

Ungir jafnaðarmenn telja jafnframt að efla þurfi uppbyggilega og gagnrýna umræðu um kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu.  Þarf sú umræða að byggjast á langtímahugsun og framtíðarsýn með hagsmuni íslensks almennings að leiðarljósi.  Ungir jafnaðarmenn skora á forystufólk Samfylkingarinnar að taka frumkvæðið í þessari umræðu og leiða hana frá þeim villigötum þjóðernishyggju sem hún er á.

3.5 Ungir jafnaðaramenn vilja frjálsa og sjálfstæða Palestínu

Ungir jafnaðarmenn fagna því að íslensk stjórnvöld viðurkenni nú Palestínu sem sjálfstætt ríki. Ungir jafnaðarmenn hvetja þingmenn og ráðherra til að halda áfram að beita sér fyrir málefnum Palestínu.

Ungir jafnaðarmenn hvetja til tveggja-ríkja-lausnar milli Ísraels og Palestínu í samræmi við landamærin frá 1967.  Jafnframt krefjast Ungir jafnaðarmenn þess að mannréttindi Palestínufólks verði virt að fullu; -þar á meðal réttur flóttafólks til að snúa heim.