Stjórnmálaályktun frá landsþingi Ungra jafnaðarmanna 2010

Stjórnmálaástand á íslandi er ekki beisið um þessar mundir.  Nýleg umræða um það hvort ákæra beri ráðherra fyrri ríkisstjórna ber þess glögg merki.  Vitað var að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við erfiðu búi og verkefnin eru langt í frá leyst þó mörgu hafi verið áorkað.

Verkefnið sem beið var vitaskuld uppbygging samfélagsins úr þeim rústum sem frjálshyggustefna fyrri stjórnvalda hafði lagt samfélagið í.  Von var til þess að hreinræktaðri vinstri stjórn héldist betur á verkinu að byggja upp réttlátt samfélag en þeirri vegferð hefur ítrekað verið komið af sporinu með marklausri umræðu og sundurleitu Alþingi.

Vandamálið sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir er ekki pólitískt. Orsakir eru það og hugsanlega má teygja sig til þess að lausnirnar séu það líka.  En staðreynd málsins er sú að heimilin þjást, atvinnuleysi er gríðarlegt, öll helstu hagsmunasamtök orga á aðgerðir og almenningur er að missa þolinmæðina.  Fólksflótti ungra borgara þessa lands á vit tækifæra erlendis er staðreynd og við því verður að sporna.

Því er óforsvaranlegt að Alþingi hysji ekki upp um sig buxurnar og taki höndum saman um það að horfa fram á við.  Með  nýju þing upphafi fæst tækifæri til nýrrar byrjunar og því skora Ungir jafnaðarmenn á þingmenn allra flokka að taka höndum saman og endurreisa lýðræðið í landinu.

Traust peningastefna og forgangsraðaður niðurskurður eru brýnustu velferðarmálin sem standa fyrir dyrunum.  Í því samhengi ber að horfa til evrunnar enda er það eini raunhæfi kosturinn í gjaldmiðla málum.

Ungir jafnaðarmenn hvetja ríkisstjórnina til þess að leggja hart að samninganefnd Íslands að koma okkur inn í aðlögunarferlið ERM II til þess að fá aðstoð ESB til að vernda gengi íslensku krónunnar, hvort sem evran verður á endanum tekin upp eður ei.  Það er eina raunhæfa stefnan í peningamálum, ef ekki eiga vað vera hér viðvarandi gjaldeyrishöft.

Eina leiðin til þess að fá varanlegan stöðugleika í verðbólgu á Íslandi er með stöðugum gjaldmiðli og ekki er hægt að sjá hvernig slík takmörk nást með núverandi stefnu.

Forgangsraða þarf í niðurskurði með velferðarkerfið í forgangi og þá sérstaklega í hag ungu fólki og ungra barnafjölskyldna.  Þá þarf að gæta að þeim sem minna meiga sín í samfélaginu og lýta Ungir jafnaðarmenn þar sérstaklega til bóta hverskonar, s.s. örorkubóta.

1. Mennta- og velferðarmál

Veltum skuldaklöfum af ungu fólki og fjárfestum í framtíðinni

Það kemur að því í lífi ungs fólks að það þarf að stofna heimili. Húsnæðiskerfið hverju sinni ræður nokkuð um það hvernig fyrsta heimilið er fjármagnað. Á Íslandi hafa verið gerðar tíðar breytingar á umhverfi fólks til kaupa á íbúðum og virkur leigumarkaður ekki verið til staðar. Unga fólkið sem þurfti að koma sér upp heimili á árunum fyrir hrun bauðst að taka allt upp í 100% lán fyrir íbúð.

Á tímabili ýtti bankakerfið mjög svo að ungu fólki gengistryggðum lánum. Síðan kom hrunið og höfuðstólar á verð- og gengistryggðum lánum heimilanna stökkbreyttust. Ungu fjölskyldurnar sem voru almennt með mjög hátt hlutfall veðsetningar eru nú fastar í skuldafangelsi og hafa ekki möguleika á að skipta um húsnæði eftir því sem fjölskyldustærðin breytist. Þar að auki hefur greiðslubyrðin aukist mjög og margir lent í greiðsluvanda. Ungt fólk sem kom sér upp húsnæði, óvitandi að það var tilraunadýr í frjálshyggjutilraun stjórnvalda, þarf nú að fá réttan sinn hlut því ekki eru í gildi nægjanlega sterk neytendalög sem verja lántakendur. Öll áhættan hefur verið á lántakendum.

Skulda- og greiðsluvandinn hefur legið á heimilunum um allt of langt skeið. Það hafa verið sett í gang mörg úrræði, en deilt hefur verið um árangurinn af þeim. Það verður þó ekki framhjá því litið að Árni Páll Árnason kom mörgum úrræðum í gang sem félagsmálaráðherra. Margar fjölskyldur hafa fengið léttari greiðslubyrði sem hefur létt verulega á greiðsluvandanum. Árni Páll sýndi líka verulega gott fordæmi sem stjórnmálamaður þegar hann tók á fjármögnunarfyrirtækjunum og barðist með réttlætið að vopni fyrir lækkun höfuðstóla á gengistryggðum lánum. Þar sýndi ráðherrann vilja og þor. Nú hefur náðst betri lækkun á höfuðstólunum því gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg. Árna Páls bíður nú að leysa úr skuldavandanum þar sem hann er orðinn efnahags- og viðskiptaráðherra. Forveri hans hafði engan vilja til að takast á við skuldavandann en nú er lag fyrir Árna Pál að nota sömu réttlætisrökin og hann notaði gegn gengistryggðu lánunum og ráðast nú að stökkbreyttum verðtryggðum höfuðstólum lána heimila.

Lausnin á skuldavandanum snýst um að horfast í augu við raunveruleikann og viðurkenna að verðtryggingin tryggði ekki raunverulegt verðmæti lánanna, heldur hækkaði höfuðstólana þegar verðmæti lánanna í raun lækkaði með lækkun húsnæðisverðs og lækkun á kjörum launafólks. Það þarf einungis vilja til að sjá að lofti var blásið í höfuðstóla lána, líkt og lofti var blásið í hlutabréfamarkaðinn með skelfilegum afleiðingum.

Mögulegar aðgerðir:

1.1 Breyta þarf gengistryggðum húsnæðislánum

Tryggja þarf að breyting á gengistryggðum húsnæðislánum yfir í verðtryggð íslensk lán fari fram á réttlátan hátt. Það verður að taka tillit til meira en einungis lagabókstafsins. Hrunið var algjört einsdæmi og lagaumhverfið gerði ekki ráð fyrir slíkum hamförum. Alþingi getur brugðist við dómum hæstaréttar með því að setja ný lög, ef núgildandi lög tryggja ekki réttlætið. Ljóst er að enginn hefði gengið að lánasamningi sem hafði þann möguleika að vextirnir mundu hækka í 20%.

1.2 Endurhugsa þarf verðtrygginguna

Stjórnmálamenn eru hvattir til þess að viðurkenna galla á núverandi verðtryggingarkerfi, sem virðist bara virka í verðbólgu vegna uppgangs. Þeir eru hvattir til þess að sjá fyrir sér hvernig kerfið væri án þessa galla. Hvernig höfuðstólar lána hefðu breyst í gegnum hrunið í ógölluðu kerfi og endurreikna höfuðstóla lána skv. kerfi sem dreifir betur áhættu.

1.3 Jafnvægi milli lántakenda og lánveitenda

Hallveig, Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík, ályktaði strax eftir hrun að þak ætti að setja á hækkun verðbóta líkt og Hagsmunasamtök heimilanna leggur nú til. Þar verður að finna réttmæta prósentutölu sem dreifir áhættu á milli lántakenda og lánveitenda. Lánveitendur mega ekki hafa hag af því að efnahagskerfið fari í ójafnvægi. Lagaumhverfi verður að hvetja til efnahagsstöðuleika. Skoða hvort verðbætur á verðtryggðum lánum eigi ekki að safnast upp á láni sem verður sett við hlið verðtryggða lánsins, þannig að verðbætur séu ekki verðbættar aftur og aftur. Dreifir betur áhættunni á milli aðila og lántakinn sér að höfuðstóllinn á aðalláninu lækkar. Skoða hvort ekki eigi að reikna út verðbætur miðað við meðaltals verðbólgu síðustu ára. Mundi jafna sveiflur og gefa tíma til að bregðast við ef kemur skellur. Ef þetta hefði verið við líði þá hefðu höfuðstólar ekki bólgnað strax út við hrunið og stjórnvöld hefðu haft meiri tíma.

1.4 Kaupleiga í stað lána

Athuga hvort húsnæðiskerfið ætti frekar að vera byggt upp með kaupleigusamningum, þannig að íbúðalánasjóður komi að fasteignakaupum sem meðfjárfestir í eigninni í stað þess að veita lán fyrir henni. Það sem vinnst með þessu er að verðmæti eignar fjármögnunaraðilans helst alltaf í hendur við raunverulegt verðmæti íbúðarinnar. Íbúðareigandinn mun þá gefa eftir að sitja einn af hækkun húsnæðisverðs. Íbúðareigandinn mundi greiða fjármögnunaraðilanum leigu sem mundi lækka eignarhluta fjármögnunaraðilans.

1.5 Stytta binditíma verðtryggðra reikninga

Það þarf að losa um fjármuni sem eru fastir inn á verðtryggðum bankareikningum með því að stytta binditímann úr 3 árum í t.d. 1 ár.

1.6 Evrópusambandið og almennar aðgerðir

Fyrir ung heimili skiptir höfuðmáli að ná fram efnahagsstöðugleika. Losna undan kjaraskerðingar verkfæri stjórnvalda, íslensku krónunni, og verðtryggingunni. Aðildarferli að ESB og að lokum innganga mun hjálpa okkur inn á rétta braut. Það er kominn tími á almennar aðgerðir. Hinar miklu sértæku aðgerðir vegna greiðsluvandans hafa ekki tekið á skuldavandanum. Það þarf að komast líf í fasteignamarkaðinn svo ungu fjölskyldurnar losni úr skuldafangelsum. Það verður að koma á tilfinningu um réttlæti, að höfuðstóll skuldbindinga á heimilum sé réttlátur miðað við upphaflegar forsendur. Það verður að hlusta vel á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna. Það verður að bæta löggjöf um neytendavernd. Það verður að jafna áhættuna í lánaviðskiptum.

1.7 Öflugra frumkvöðlastarf

Ungir jafnaðarmenn hvetja yfirvöld og skóla til að ýta undir nýsköpun og frumkvöðlastarf á öllum skólastigum. Einnig ber skólum að fylgja lögum um jafnréttis- og mannréttindakennslu á öllum skólastigum. Jafnréttisnám á að setja í aðalnámskrá.

1.8 Aukið vægi listgreina

Ungir jafnaðarmenn telja að auka þurfi vægi skapandi listgreina. Listir og menning eiga að hafa sama vægi og annað nám. Ungir jafnaðarmenn hvetja stjórnvöld til að bjóða upp á fjölbreyttari námskeið í skólum. Brottfall úr íslenskum skólum er mikið og fjölbreyttara úrval námsefnis mun hiklaust draga úr því

1.9 Skólaskylda í 18 ár

Ungir jafnaðarmenn vilja að leitast sé eftir því að skólaskylda sé hækkuð til 18 ára. Þetta má afreka með endurskipulagningu grunn- og framhaldsskólakerfisins. Efla skal styrktarsjóði fyrir höfunda námsbóka og rafvæða námsbækur í kjölfarið. Skólabækur á íslandi skulu vera gefnar út undir opnum leiðum og leita skal allra leiða til að hafa þær ókeypis.

1.10 Aukin Starfsþjálfun

Auka þarf starfsnám og starfsþjálfun í námi á öllum skólastigum. Aðkoma nema að raunverulegum verkefnum og störfum eflir getu þeirra til muna. Tryggja þarf aðkomu námsmanna að málefnum er snúa að þeim sjálfum. Ekkert um okkur án okkar!

1.11 Samþætting Leik- og grunnskóla

Skoða skal samþættingu leik- og grunnskóla, kostir og gallar athugaðir. Skólastig á Íslandi eru afar ósamræmd og efla þarf tengingu allra skólastiga.

1.12 Framhaldsskólaáfangar í grunnskólum

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að grunnskólanemar geti áfram tekið áfanga í framhaldsskólum. Ríki og sveitafélög skulu leysa þetta mál í þágu ungs fólks.

1.13 Burt með 45% hverfaskiptingu

Afnema þarf 45% hverfaskiptingu í framhaldsskólakerfinu.

1.14 Stöðluð stöðupróf í framhaldsskólum

Framhaldsskólanemar þurfa að hafa möguleika á því að taka stöðluð stöðupróf til að meta stöðu sína og komast fyrr áfram í menntakerfinu.

1.15 Verja skal opinbera Háskóla

Ungir jafnaðarmenn vilja að stjórnvöld dragi úr ríkisstyrkjum til einkarekinna mennta- og háskóla. Hlífa þarf opinberum skólum við frekari niðurskurði. Vinna að sameiningum á skólum á háskólastigi, það er ótækt að 300.000 manna ríki sé að halda úti 7 háskólum. Efla þarf einnig tengingu milli íslenskra námsmanna og erlendra háskóla til að sjá til þess að íslenskir námsmenn hafi sem fjölbreyttasta námsmöguleika.

1.16 Mannsæmandi námslán

Tryggja skal að lágmarksframfærsla LÍN skuli aldrei fara undir lágmarkslaun eða atvinnuleysisbætur hvort sem er hagstæðara fyrir námsmenn. Auk þess skal vinna að því að hluti námslána skuli vera styrkur, þetta má afreka með kerfisbreytingu innan LÍN. Leggja skal niður skólagjaldalán á íslandi nema í námi sem er ekki í boði í ríkisháskólum.

1.17 Yfirtaka á Listaháskólanum

Ríkið skuli taka yfir Listaháskóla Íslands þegar betur viðrar í efnahagsmálum. Ríkið á að bjóða upp á sem fjölbreyttast nám og er þar listnám ekki undanskilið.

2. Orku- og auðlinda- og landbúnaðarmál

Auðlindir í þágu þjóðar

2.1 Skilgreining auðlindamála

Við útdeilingu nýtingarrétar takmarkaðra auðlinda á sjó, neðanjarðar og ofanjarðar ætti að  hafa samræmda löggjöf. Byggja skal á kerfi sem tryggir að einkaaðilar sjái sér vel fært að annast úrvinnslu auðlinda. Dreifing nýtingarréttar skal þó vera í höndum ríkisins að öllu leyti og skal allur hagnaður af útdeilingu réttinda falla sameiginlegum sjóðum í skaut til að standa straum af eftirliti. Kerfi framseljanlegra heimilda eru vel möguleg en verða að byggja á skýrum skilyrðum um tímabundin yfirráð einkaaðila yfir þeim heimildum. Takmarkanir á notkunarrétti skulu ávallt miðast við sjálfbæra nýtingu auðlindanna.

Hvatt er til þess að félagsleg markmið séu mjög vel skilgreind eigi að ná nokkrum slíkum með notkun náttúruauðlinda. Þá sé tryggt að annar stuðningur sé jafnframt til staðar svo nýtingarrétturinn einn standi ekki fyrir öllum félagslegum markmiðum sem eigi að ná. Taka má dæmi af sjávarútvegi og landbúnaði til útskýringar: Landbúnaðarkerfið virðist hafa það eitt að markmiði að ná mjög óskilgreindum félagslegum markmiðum um búsetu, atvinnuhætti og fjölskylduform. Fiskveiðistjórnunarkerfinu er kennt um alvarlega byggðaröskun sem kerfinu var þó ekki ætlað að standa gegn. Milli þessara tveggja öfga hlýtur að vera skynsamlegri og skilvirkari lausn.

2.2 Orkuveitur í opinberri eigu

Ungir Jafnaðarmenn vilja ekki að orkufyrirtækin fari í stórar verkefnatengdar framkvæmdir heldur stofni um það dótturfyrirtæki sem myndi vera alfarið eða í meirihluta eigu opinbera aðila. Auk þess vilja Ungir jafnaðarmenn að orkuframleiðsla, dreifing og veitur verði alfarið í eigu opinbera aðila. Ungir jafnaðarmenn skora á íslenska ríkið eftir að rammaáætlun hefur verið samþykkt að upplýsa íslensku þjóðina um orku framleiðslugetu Íslands til næstu 40 ára svo mýtan um næga orku á íslandi verði þögguð niður og við einbeitum okkur að að fá fyrirtæki sem nýta orkuna eins og við viljum – þurfum hér að setja saman texta um fegurðarsamkeppni fyrirtækja – hvernig sækjum við þau og hvað viljum við (hátækni – menntuðstörf – ekki mannafls frekar framkvæmdir ) þurfum að geta sótt ákveðin fyrirtæki.

2.3 Græn atvinna

Ungir jafnaðarmenn vilja byggja upp atvinnuvegi sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Ísland hefur ennþá gott orð á sér fyrir skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og nærgætni í umgengni við náttúruna. Það orðspor ber að vernda og styrkja svo atvinnulífið geti byggt á þeirri ímynd til framtíðar.

Þarfir hagkerfins fyrir fjölbreyttari og styrkari stoðir rímar vel við ákall um uppbyggingu hins græna hagkerfis. Ísland á að taka þau skref sem þarf til að verða sjálfbært um alla orku. Þá ætti að notfæra til hins ýtrasta þau tækifæri sem gefast við undirritun loftslagssáttmál SÞ til að byggja upp atvinnustarfsemi sem sáttmálinn leiðir af sér.

Orkufyrirtæki sem starfa í almannaþágu eiga ekki að þurfa að sætta sig við boð frá stökum orkukaupendum án tillits til lengdar virðiskeðju þeirra hér á landi. Meta þarf alla þá sem vilja kaupa orku á stóriðjukjörum með tilliti til þess hve mikil vinnsla fer fram hér á landi, hvort auka eigi virði hráefnis hér á landi og hvort starfsstöðin geti af sér störf í þekkingargreinum og vísindum. Þótt Íslendinga þyrsti í erlendar fjárfestingar er engin ástæða til að gefa afslátt af kröfum um sterkt og fjölbreytt atvinnulíf fyrir aukinn hraða í ákvarðanatöku.

2.4 Þjóðaratkvæðagreiðslu um fiskveiðistjórnunarkerfið

UJ vill jafnframt taka undir þingsályktun um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan íslenskrar fiskveiðistjórnar sem þingmenn Samfylkingar og Vinstri Grænna lögðu fram á yfirstandandi þingi. Þar sem það er lagt fram að Alþingi muni fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnarkerfisins þar sem lagðar verði fram grundvallarspurningar, meðal annars hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, sett sérstök stjórnarskrárákvæði um eignarhald auðlindarinnar og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar.

2.5 Lífrænn landbúnaður

Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd, styrkir búsetu með fjölbreyttari atvinnu og eykur möguleika á nýsköpun og fjölgun starfa. Íslenskur landbúnaður þarf að þróast í góðri sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun og því ætti að forðast samþjöppun í landbúnaði og verksmiðjubúskap. Setja þarf ákveðin framleiðslumarkmið. Draga þarf markvisst úr eiturefnanotkun í landbúnaði enda verða lífrænar afurðir sífellt eftirsóttari og skapa áhugaverð sóknarfæri á komandi árum

2.6 Landbúnaður og ESB

Ýmsir hafa óttast að við inngöngu Íslands í Evrópusambandið muni íslenskur landbúnaður líða undir lok.  Margt bendir hinsvegar til þess að hann myndi frekar styrkjast í sessi enda er meginmarkmið nýrrar landbúnaðar- og dreibýlisstefnu Evrópusambandins að tryggja búsetu í dreifðum byggðum allra aðildarríkja.  Dregið verður úr beinum framleiðslustyrkjum til bænda en áhersla lögð á að styðja við þá til að takast á við fjölbreytt verkefni samhliða hefðbundnum búskap.  Þá verður bændum tryggt ákveðið öryggi fari verð á landbúnaðarvörum niður fyrir tiltekið lágmark.

Hin nýja landbúnaðar- og dreifbýlisstefna fellur mjög vel að íslenskum landbúnaði enda er horfið frá því að styrkja stórar framleiðslueiningar í það að styrkja búskap af þeirri stærðargráðu sem hentar best íslenskum aðstæðum.  Vistvænar afurðir munu fá greiðan aðgang að mörkuðum Evrópusambandins og er þar komið sóknarfæri fyrir íslenka bændur að huga að útflutningi hágæða afurða á borð við kjöt, skyr og smjör.

3. Allsherjarnefnd:

3.1 Ráðherrar taki sér leyfi frá þingmennsku meðan þeir gegni ráðerradómi.

Ungir jafnaðarmenn krefjast að ráðherrar flokksins segi sig tímabundið frá þingmennsku gegni þeir einnig stöðu ráðherra. Fyrir þinginu liggur löggjöf þess efnis að ráðherrar geti sagt af sér þingmennsku tímabundið. Ungir jafnaðarmenn hvetja þingheim til að taka þá tillögu fyrir sem fyrst. Með því sýna ráðherrar Samfylkingarinnar í verki þann ásetning flokksins að styrkja beri stöðu Alþingis og skerpa á aðskilnaði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Sú reynsla sem hefur fengist af setu utanþingsráðherra, Rögnu Árnadóttur og Gylfa Magnússonar, sýnir að ráðherrar geta vel setið utan þings og því ekkert ráðherrum flokksins að vanbúnaði.

3.2 Stuðla skal að sameiningu sveitarfélaga í sátt við íbúa þeirra.

Stefna skal að því að sveitarfélög innihaldi ekki færri íbúa en 10.000.  Afar mörg sveitafélög búa við afar lélegan rekstrargrundvöll vegna fámennis. Því liggur við að nauðsynlegt sé að sameina sveitafélög til að styrkja stoðir þeirra áður en frekari verkefni flytjast frá ríki til sveitafélaga.

3.3 Stjórnlagaþing efli þrískiptinguna

Mikilvægt er að stjórnlagaþing skoði sérstaklega hvernig styrkja megi þrískiptingu valdsins með sérstakri hliðsjón af því að efla þingræði. Atburðir síðustu ára hafa sýnt það glögglega hversu hættulegt ráðherraræði getur verið. Mikilvægt er að Alþingi Íslendinga verðir eflt til þess að jafnvægi náist á milli framkvæmda og löggjafavalds. Mikilvægt er að lýðræðislega kjörnir fulltrúar virki ekki eins og afgreiðslustofnun fyrir ákvarðanir framkvæmdavaldsins. Í því samhengi ber að endurskoða aðstoðarmannakerfið, enda telja Ungir jafnaðarmenn að afnám þess hafi verið mistök. Jafnramt skal þingheimur staðfesta skipun dómara í öllum tilfellum, enda eykur gegnsæi í skipun sjálfstæði dómstóla.  Þá er mikilvægt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu sé skýrð og leikreglur einfaldaðar.

3.4 Kosningar til Stjórnlagaþings

Mikilvægt að er að í kosningum til stjórnlagaþings sé ekki einungis gætt að kynjahlutföllum heldur einnig aldurssamsetningu. Mikilvægt er að tryggja það að sem víðastur samfélagshópur komi að gerð nýrrar stjórnarskrár.

3.5 Aukin lýðræðisleg aðkoma ungs fólks

Auka þarf aðkomu ungs fólks að lýðræðislegum ákvörðunum. Í því samhengi telja Ungir jafnaðarmenn að skoða skuli það hvort ekki sé rétt að lækka kosningaaldur í sveitarsstjórnarkosningum niður í 16 ár, enda snúast slíkar kosningar oft að miklu leiti um reynslu heim ungs fólks og nærumhverfi þeirra. Þá krefjast Ungir jafnaðar þess að hið opinbera stofni ungmennaráð í öllum sveitarfélögum og haldi ungmennaráðum virkum eins og segir til um í lögum.  Einnig telja Ungir jafnaðarmenn það nauðsynlegt að ungt fólk sé fulltrúar í Íslenskum sendinefndum erlendis, t.d. á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, líkt og tíðkast víða í löndum í kringum okkur.

3.6 ókeypis smokkar

Ungir jafnaðarmenn telja að nýskipaður velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson komi smokkum af sínu borði og yfir í grunn- og menntaskóla.

3.7 Efna skal til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Íslands í NATÓ.

Íslendingar fengu aldrei að greiða atkvæði um veru sína í NATÓ. Líkt og við krefjumst þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við göngum í ESB telja Ungir jafnaðarmenn rétt að greiða atkvæði um veru okkar í öðrum bandalögum, líkt og NATÓ.

3.8 Landið eitt kjördæmi

Ungir jafnaðarmenn vilja að í stað núverandi kjördæmaskiptingar verði landið eitt kjördæmi. Með núverandi kjördæmaskiptingu einkennir það starf margra þingmanna að þeir líti á sig einungis sem hagsmunafulltrúa íbúa á ákveðnum landssvæðum. Alþingismenn eiga aftur á móti að vera kjörnir á þing til að sinna heildarhagsmunum þjóðarinnar og forgangsraða þannig að það hagnist íbúum landsins sem heild.

3.9 Aðskilnaður Ríkis og kirkju

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar uppfylli ákvæði um aðskilnað ríkis og kirkju er kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna.

3.10 Persónukjör

Ungir jafnaðarmenn hafna persónukjöri, enda ekki komin leið að mati Ungra jafnaðarmanna sem eykur á lýðræði. Ungir jafnaðarmenn hafa sérstakar áhyggjur af hlut kvenna og efnaminni, þegar kemur að hugmyndum um persónu kjör.

3.11 Ekki vatn í flöskum

Ungir jafnaðarmenn skora á ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að beina þeim tilmælum til allra stjórnsýslustiga að skattfé verði ekki eytt til kaupa á átöppuðu vatni. Á Íslandi er hreint og tært vatn öllum aðgengilegt og með slíkum kaupum kristallast sú sóun sem hið opinbera er oft sakað um.

3.12 Lögfesting Austurrísku leiðarinnar

Heimilisofbeldi er samfélagsmein, sem erfitt hefur reynst að uppræta. Ungir jafnaðarmenn vilja að austuríska leiðin verði lögfest á Íslandi. Austuríska leiðin felur í sér heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili og banna heimsóknir hans á heimilið í tíu daga til þrjá mánuði. Heimilin eiga að vera griðastaður og ekki réttlátt að þolendur ofbeldis séu látnir flýja heimili sín. Með austurrísku leiðinni er ofbeldismanni náð út af heimilinu og gefur það möguleika til að ná til hans og hvetja hann til að takast á við ofbeldishneigð sína. Leiðin sem var upphaflega farin í Austurríki 1997 hefur breiðst víða út um Evrópu. Þolendur eiga ekki að verða flóttamenn í eigin landi meðan ofbeldismenn hreiðra áfram um sig á heimilinu og virðast lausir allra mála.

3.13 Stefna í æskulýðsmálum

Ungir jafnaðarmenn vilja að lögð verði fram stefna í æskulýðsmálum líkt og gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Stefnan þarf að taka á þeim vanda sem ungt fólk stendur frammi fyrir í dag og vera í stöðugri endurskoðun eftir aðstæðum. Stefnan skal vera unnin í fullu samráði við æskulýðsfélög landsins og gæta þess að hagsmunir æskunnar séu tryggðir.

3.14 Herða skal reglur um fjármál til stjórnmálaflokka.

Nýverið voru samþykkt endurskoðuð lög um fjármál stjórnmálaflokka. Þar telja Ungir jafnaðarmenn að ekki hafi verið gengið nægjanlega langt og vilja sjá algert gegnsæi gagnvart framlögum og taka fyrir fjárframlög fyrirtækja og annarra lögaðila. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn ekki takmarka framlög einstaklinga til stjórnmálaafla, enda sé algert gegnsæi tryggt.  Á móti skal ríkið auka framlög sín til stjórnmálaflokka.

3.15 íslenska ríkið fullgildi valfrjálsa bókun Sameinuðu þjóðanna

Ungir jafnaðarmenn hvetja ríkisstjórnina til þess að skrifa undir og fullgilda nýlega valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Brot á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum mannréttindum bitna helst á þeim einstaklingum sem búa við fátækt eða tilheyra jaðarhópum samfélagsins, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar. Með fullgildingu bókunarinnar yrði því stigið stórt skref í mannréttindabaráttu þeirra sem verst hafa það í íslensku þjóðfélagi. Bókunin gefur einstaklingum og hópum kost á að leita réttar síns á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ef brotið er á þessum réttindum. Bókunin er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota.

Ungir jafnaðarmenn telja að Íslendingar hafi tækifæri til að vera í fararbroddi í þessu mikilvæga máli, en til þess að bókunin öðlist gildi þurfa einungis tíu ríki að fullgilda hana. Ríkisstjórnin myndi með aðild Íslands sýna raunverulega skuldbindingu gagnvart vernd mannréttinda og virðingu fyrir þeim.

Ungir jafnaðarmenn telja að undirritun og fullgilding þessarar bókunar sé kjörið tækifæri til að sýna að mannréttindaáherslur stjórnarsáttmála Norrænu velferðarstjórnarinnar séu ekki bara orðin tóm heldur búi einlæg sannfæring að baki.

3.16 Traust til ungmenna

Ungir jafnaðarmenn telja að færa beri sjálfræðisaldur aftur niður í 16 ár. Með því myndast ekki samfélag sjálfráða og ósjálfráða í menntasólum landsins, heldur er jafnræðis þar gætt. Þá vilja Ungir jafnaðarmenn halda bílprófsaldri í 17 árum og færa áfengisaldurinn niður í 18 ár. Með því fá ungmenni réttindi og skyldur í rökréttum skrefum sem leiða til aukins samfélagsþroska.

3.17 Styttra lýðræði

Hið opinbera komi sér upp þjónustumiðstöðvum sem þjóna allra algengustu stjórnsýsluþörfum almennings. Með slíku er átt við t.d. umsóknir um fæðingarorlof, þjóðskrárerindi, réttindi hjá almannatryggingum, skattaþjónustu og aðrar slíka grunn þjónustu. Hugmyndin er sú að í stað þess að almennir borgarar eltist við stjórnsýsluna á mörgum mismunandi stofnunum þá fái þeir heildarlausn á einum stað. Þessar miðstöðvar sjá síðan um að koma erindum borgaranna til viðeigandi fagstofnanna. Slíkar miðstöðvar þurfa að vera dreifðar um allt land og auka jafnframt getu ríkisins til þess að færa stjórnsýsluna til landsbyggðarinnar.   Þetta skal gera í samráðai við sveitarfélög á hverjum stað.

3.18 Opið lýðræði

Ungir jafnaðarmenn vilja að tryggt verði í stjórnarskrá og lögum að þjóðin fái aðkomu að lagasetningu og stefnumörkun í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur og íbúakosningar. Ákveðinn hluti þjóðarinnar á að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið málefni. Sama á að eiga við á sveitarstjórnarstiginu þannig að ákveðinn hluti íbúa á að geta krafist íbúakosningu um tiltekið málefni. Tryggja verður jafnframt að Alþingi geti skotið lagafrumvarpi til þjóðarinnar til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess vilja Ungir jafnaðarmenn að ríkisvaldið taki sér Reykjavíkurborg til fyrirmyndar og komi á fót opnum lýðræðisvefum sbr. Betri Reykjavík.

3.19 Aðild að ESB

Ungir jafnaðarmenn fagna þeim farvegi sem aðildarumsókn að ESB er komin í. Nýlegar kannanir sýna að mikill meirihluti íslendina eru hlynntir því að klára skuli samningaviðræður og samningurinn settur í dóm þjóðarinnar. Ungir jafnaðarmenn hvetja stjórnvöld til dáða í umræðunni um ESB og hvetja til málefnalegrar umræðu á grundvelli staðreynda en ekki goðsagna.

4. Umbótanefnd Ungra jafnaðarmanna

Ábendingar til umbóta

4.1 Efnahagsstefna Samfylkingarinnar

Ungir jafnaðarmenn vilja beina athygli Umbótanefndarinnar að efnahagsstefnu Samfylkingarinnar fyrir bankahrun og þegar hún sat í ríkisstjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum árið 2007-2009. Ef stefnan er borin saman við niðurstöðu rannsóknaskýrslu alþingis frá 2010 má sjá þar mikla samleið. Því eru afsakanir Samfylkingarinnar um að flokkurinn sæi ekki hvað var í vændum gersamlega fráleitar. Umbótanefndinni og flokknum ber að skoða hvort Samfylkingin þurfi að játa aukna aðild að þeim óförum sem hér voru vegna vanrækslu til að tilkynna og bregðast við skipbrotinu.

4.2 Gjá milli ráðherra og grasrótar

Ungir jafnaðarmenn undrast hve illa ráðherrar Samfylkingarinnar fylgja samþykktum lands- og flokkstjórnarfunda. Það er afar undarlegt að á stjórnarandstöðuárum flokksins var margt predikað s.s gagnsæji, jafnrétti  og  réttlæti. En um leið og flokknum bauðst að taka við ráðherrastólum hófu ráðherrar flokksins um leið að brjóta í bága við eigin predikanir. Dæmi má nefna um afar vafasamar ráðningar, og stundum ítrekaðar ráðningar fárra einstaklinga.

Einnig harma Ungir jafnaðarmenn hve mikil gjá er á milli ráðherra, þingmanna og svo grasrótar flokksins. Þegar samþykktir flokkstjórnarfunda og landsþinga er ekki fylgt hafa t.a.m ráðherrar gerst brotlægir um að fjarlægjast rætur sínar og bakland.

Þegar æðstu ráðamenn flokksins brjóta svo ítrekað gegn samþykktum flokksins er verið að gera lítið úr þeirri vinnu sem flokksmeðlimir- og deildir leggja á sig við að koma hugsjón sinni  á framfæri. Slíkur starfsháttur dregur úr þrótti þeirra sem innan flokksins starfa og efast Ungir jafnaðarmenn um tilgang sinn og nauðsyn innan Samfylkingarinnar.

4.3 Vantraust oddvita á eigin ráðherra

Ungir Jafnaðarmenn furða sig á því ráðherravali sem átti sér stað á árunum 2007-2009. Þegar að rannsóknarskýrsl alþingis er skoðuð má greinilega sjá að einum ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Björgvin G. Sigurðsson f.v viðskiptaráðherra fékk fátt að vita um atburðarás bankahrunsins þrátt fyrir að það ætti greinilega heima undir hans málaflokki. Því spyrja Ungir jafnaðarmenn á hvaða forsendum Björgvin G. Sigurðsson var skipaður sem ráðherra. Hvað vakti fyrir f.v oddvita flokksins þegar hún skipaði hann og treysti honum greinilega ekki?