Landsþing 2009

Ályktanir af landsþingi UJ 2009

Einnig fáanlegt í PDF skjali

Stjórnmálaályktun landsþings Ungra jafnaðarmanna 2009

Ný tækifæri á jöfnum grunni

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tekur við slæmu búi. Frjálshyggjutilraun gróðahyggjuafla undanfarinna ára endaði með ósköpum. Bankarnir voru einkavæddir í hendur útvalinna og skattkerfinu var skipulega breytt til að hygla þeim ríku á kostnað þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Yfirgangur stjórnvalda var slíkur að frændhyglni og valdhroki þóttu orðið eðlilegir eiginleikar stjórnmálamanna. Afraksturinn var hrun fjármálakerfisins, gjaldmiðilsins og heimilanna. Skuldir almennings hækka, launin lækka og fólk hefur gripið til þess ráðs að flýja land.

Með jafnaðarstefnuna og lýðræði að leiðarljósi má byggja nýtt samfélag úr rústum frjálshyggjunnar, samfélag á grunni jöfnuðar, jafnréttis og frelsis. Hornsteinn jafnaðarmanna í forystu ríkisstjórnar verður að vera baráttan fyrir almannahagsmunum, ekki sérhagsmunum. Stjórnvöld þurfa að stuðla að sjálfbærri atvinnusköpun, jöfnum aðgangi að menntun og heilbrigðum fjármálamarkaði. Útrýma þarf misrétti gagnvart konum, tryggja áhrif kvenna í hinu opinbera lífi til jafns við áhrif karla og berjast af alvöru gegn kynbundnu ofbeldi. Síðast en ekki síst verður að tryggja heiðarlegt stjórnmálaumhverfi, byggt á fagmennsku, heilindum og gegnsæi.

Ríkisstjórnin, fyrsta hreina félagshyggjustjórn Íslandssögunnar, má engan tíma missa. Stórar og erfiðar ákvarðanir eru framundan í ríkisfjármálum, sem eru óumflýjanlegar vegna þeirrar stöðu sem óheft frjálshyggja og græðgi auðjöfra hefur steypt þjóðarbúinu í. Ungir jafnaðarmenn styðja ríkisstjórnina í þessum erfiðu aðgerðum í trausti þess að þær séu nauðsynlegur liður í að reisa Ísland við á ný. Ríkisstjórnin hefur nú þegar lyft grettistaki við erfiðustu pólitísku aðstæður frá lýðveldisstofnun.

Það vill Íslendingum til happs að á landinu er hefð fyrir sterku velferðarkerfi að Norrænni fyrirmynd. Ungir jafnaðarmenn munu berjast fyrir því að félagslegum gæðum verði ekki fórnað til frambúðar vegna þrenginganna. Hætta er á að örbirgð og skortur festist í sessi og verða stjórnvöld á þessum tímum fyrst og fremst að tryggja að þau fátækustu njóti mannsæmandi framfærslu, réttinda og lífsgæða.

Rétturinn til atvinnu er þungamiðja jafnaðarstefnunnar. Atvinnumál á Íslandi brenna nú á þjóðinni, ekki síst ungu fólki sem er stór hluti atvinnulausra. Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á að stutt verði við ungt fólk án atvinnu. Um leið þarf að horfa til framtíðar. Ungir jafnaðarmenn vilja að Íslendingar setji sér markmið um að vera kolefnishlutlaust samfélag innan nokkurra ára og verndi óspillta náttúru. Ísland á að vera sjálfbært þekkingarþjóðfélag og taka forystu í alþjóðlegu baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Uppbygging fleiri álvera samræmist ekki þeirri stefnu. Þá þarf að endurskoða styrkjakerfi atvinnuvega, einfalda og samræma það þannig að verkefni í sjávarútvegi og landbúnaði lúti sömu lögmálum og verkefni úr öðrum atvinnugreinum.

Sveitarstjórnarkosningarnar 2010 eru afar mikilvægar. Umhverfissjónarmið og félagshyggja eiga að ráða för þegar mikilvægar ákvarðanir sem varða daglegt líf almennings eru teknar. Bæta þarf almenningssamgöngur og standa við loforð um að málefni fatlaðra færist til sveitarfélaga. Þá leggja Ungir jafnaðarmenn áherslu á aukna fjarkennslu sem leið til að tryggja jafnrétti til náms um allt land.

Ljúka þarf því verki að semja stjórnarskrá Íslands í fyrsta skipti í stað þeirra leifa af gamalli danskri stjórnarskrá sem nú er notast við. Landið á að verða eitt kjördæmi með jöfnu atkvæðavægi allra og ráðherrar eiga ekki að sitja á þingi. Flýta á sameiningu ráðuneyta. Persónukjör hefur mikla kosti í för með sér og Ungir jafnaðarmenn styðja grunnhugmyndina. Tryggja þarf þó að ekki verði tekið upp kerfi sem dregur úr jafnrétti kynja í stjórnmálum eða veldur á annan hátt afturför eða ójafnrétti. Þá er betur heima setið en af stað farið.

Stórt skref í endurreisn Íslands var stigið í sumar þegar ríkisstjórnin sótti um aðild að Evrópusambandinu. Nánara samstarf við vinaþjóðir okkar í Evrópu er lykilatriði í að komast upp úr þeim vanda sem þjóðin glímir við. Upptaka evru sem gjaldmiðils verður grundvöllur stöðugs efnahagslífs, framsækinnar atvinnustefnu og betri lífskjara almennings. Með aðild getur Ísland tryggt fullveldi sitt til frambúðar og verið þjóð meðal þjóða, virkur þátttakandi í ákvarðanatöku á alþjóðavísu.
Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika þurfa Íslendingar að axla ábyrgð í samfélagi þjóðanna og styðja pólitískt við bakið á þeim sem mest þurfa á að halda, svo sem á herteknum svæðum í Palestínu. Reynslan undanfarið ár hefur kennt Íslendingum hversu þungbært er að standa ein í erfiðleikum.

Ríkisstjórnin hefur þegar stigið skref í átt að betra samfélagi með aðgerðum sem taka á skuldavanda heimilanna, sem hækka námslánin og auðvelda fólki að fara af atvinnuleysisbótum og í nám. Mikilvægt er að unnið verði áfram að lausn Icesave-vandans í samstarfi við þjóð og þing.

Í kjölfar erfiðleikanna hefst ný sókn Íslands með kröftugu og samkeppnishæfu atvinnulífi, traustu velferðarkerfi og skynsamri nýtingu auðlinda landsins. Jafnaðarmenn eru best til þess fallnir að leiða þá sókn og byggja samfélag frelsis, jafnréttis og samstöðu.

1. Ályktanir allsherjarnefndar.

1.1. Lögfesting austurísku leiðarinnar
Heimilisofbeldi er samfélagsmein, sem erfitt hefur reynst að uppræta. Ungir jafnaðarmenn vilja að austuríska leiðin verði lögfest á Íslandi. Austuríska leiðin felur í sér heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili og banna heimsóknir hans á heimilið í tíu daga til þrjá mánuði. Heimilin eiga að vera griðastaður og ekki réttlátt að þolendur ofbeldis séu látnir flýja heimili sín.

Með austurísku leiðinni er ofbeldismanni náð út af heimilinu og gefur það möguleika til að ná til hans og hvetja hann til að takast á við ofbeldishneigð sína. Leiðin sem var upphaflega farin í Austurríki 1997 hefur breiðst víða út um Evrópu. Þolendur eiga ekki að verða flóttamenn í eigin landi meðan ofbeldismenn hreiðra áfram um sig á heimilinu og virðast lausir allra mála.

1.2 Stefna í æskulýðsmálum
Ungir jafnaðarmenn vilja að lögð verði fram stefna í æskulýðsmálum líkt og gert hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Stefnan þarf að taka á þeim vanda sem ungt fólk stendur frammi fyrir í dag og vera í stöðugri endurskoðun eftir aðstæðum. Stefnan skal vera unnin í fullu samráði við æskulýðsfélög landsins og gæta þess að hagsmunir æskunnar séu tryggðir.

1.3 Ríkið greiði ekki fyrir það sem ókeypis er
Ungir jafnaðarmenn skora á ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að beina þeim tilmælum til allra stjórnsýslustiga að skattfé verði ekki eytt til kaupa á átöppuðu vatni. Á Íslandi er hreint og tært vatn öllum aðgengilegt og með slíkum kaupum kristallast sú sóun sem hið opinbera er oft sakað um.

2. Ályktanir um loftslagsmál, orku og umhverfi

2.1 Alvöru aðgerðir í loftslagsmálum
Loftslagsbreytingar eru stærsta ógnin sem steðjar að heiminum. Sé horft örlítið lengra en til morgundagsins er efnahagskreppa dagsins í dag hjóm eitt miðað við þær hamfarir sem loftslagsbreytingar geta haft í för með sér. Ungir jafnaðarmenn gera því stífa kröfu um að þingmenn og stjórnvöld tapi ekki þræðinum þrátt fyrir erfiða tíma og haldi áfram baráttunni. Engan tíma má missa til aðgerða ef takast á að snúa þróuninni við.

Allir jarðarbúar verða fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum en þróunarlönd hafa orðið enn verr úti en iðnríki. Loftslagsváin er ekki bara spurning um umhverfisvernd, heldur um samstöðu með þróunarlöndum og framtíðarkynslóðum.

Á Kaupmannahafnarfundinum í desember 2009 gefst einstakt tækifæri til að taka ákvarðanir um hvernig hægt verður að berjast gegn loftslagsvánni.

Sterkan, réttlátan loftslagssamning frá Kaupmannahöfn í desember 2009.

 • Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að fulltrúar Íslands á Kaupmannahafnarfundinum verði í fararbroddi um að tryggja framsækinn, sterkan loftslagssamning. Ríki heims þurfa að skuldbinda sig til að gera miklu betur í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun sem loftslagsbreytingar valda.
 • Nýr samningur á að byggja á tillögum Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC) og því markmiði að hnattræn hlýnun verði eins langt undir 2 gráðum og hægt er. Til þess þurfa iðnríkin að hafa minnkað losun um 40% árið 2020 miðað við tölur frá 1990 og um 95% árið 2050.
 • Ísland á ekki að sækjast eftir sérákvæði í samningnum sem felur í sér undanþágu fyrir Íslendinga til að menga meira þrátt fyrir að hafa aðgang að endurnýjanlegum orkugjöfum. Slíkt er ekki stefna núverandi stjórnvalda og því fagna Ungir jafnaðarmenn.

Iðnríki á borð við Ísland bera meiri ábyrgð en þróunarlönd

 • Himinn og haf skilur á milli þess hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum er losað af hálfu iðnríkja annars vegar og þróunarlanda hins vegar. Meðan lönd á borð við Bandaríkin og Ástralíu losa yfir 20 tonn á mann á ári, er minna en 1 tonn losað í Bangladesh. Eftir byggingu álvers á Reyðarfirði er Ísland komið í flokk þeirra sem losa hvað mest á hvern íbúa. Ríki í þeirri stöðu bera meiri ábyrgð því núverandi staða er bæði ósjálfbær og óréttlát.
 • Nýi samningurinn ætti að fela í sér ákvæði um að iðnríki kosti aðgerðir til að stöðva hina gríðarlega hröðu eyðingu regnskóganna. Þær aðgerðir og aðrar sambærilegar ættu ekki að koma til frádráttar á losun iðnríkjanna og því ekki vera innifaldar í alþjóðlegu mengunarkvótakerfi.
 • Ungir jafnaðarmenn styðja hugmyndina um hnattrænt kvótakerfi fyrir mengun og gjaldtöku fyrir hana. Um leið er minnt á að Ísland mengar mikið nú þegar. Ungir jafnaðarmenn hafna því að Ísland verði gert að nýlendu fyrir mengandi iðnað, jafnvel þótt hægt verði að kaupa kvóta fyrir menguninni.
 • Ísland getur verið í fararbroddi á þann hátt að verða fyrsta kolefnisneikvæða land í heimi. Það þýðir að við bindum að minnsta kost jafn mikið kolefni og við losum út í andrúmsloftið. Til þess þarf metnað til að menga miklu minna og binda mun meira kolvetni með hverskonar jarðræktun sem felur í sér m.a. uppgræðslu og skógrækt. Þá þarf Ísland að gera betur heldur en skilyrði Kaupmannahafnarfundarins munu væntanlega segja til um.
 • Ef Ísland ætlar að vera í framvarðasveitinni í baráttu gegn loftslagbreytingum, samrýmist það ákvörðun um uppbyggingu tveggja álvera í viðbót? Stjórnmálaflokkar og þá ekki síst Samfylkingin, þurfa að svara þeirri spurningu. Svar Ungra jafnaðarmanna er nei. Í dag er stefna ríkisstjórnarinnar ekki sérstaklega metnaðarfull í loftslagsmálum, þótt margt hafi breyst til batnaðar frá því Samfylkingin settist í ríkisstjórn. Raunar skortir enn á heildstæða stefnu Íslands í loftslagsmálum. Ungir jafnaðarmenn bíða hennar með óþreyju og vilja meiri umræðu og upplýsingar frá ríkisstjórninni um hvaða beinna aðgerða á að grípa til.

3. Ályktanir um lýðræði, mannréttindi og stjórnarskrármál

3.1. Ófarirnar á Íslandi má að miklu leyti rekja til stjórnhátta landsins undanfarin ár. Gildandi stjórnarskrá gerir ráð fyrir þingræði, þ.e. að framkvæmdavaldið sé bundið vilja löggjafarvaldsins. Þróunin undanfarna áratugi hefur verið þannig að ríkisstjórn og jafnvel einstakir ráðherrar hafa haft gríðarlegt agavald yfir þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Vegna þessarar þróunar hefur stjórnskipanin ekki uppfyllt kröfur almennings um eftirlit Alþingis með framkvæmdavaldinu. Almenningur hefur horft uppá að ákvarðanir hafa oft verið teknar af geðþótta ráðherra og að valdmörk ráðherranna gagnvart löggjafanum og almenningi afmáðust í takti við að aðhald fór þverrandi. Því verður að fara í víðtæka endurskoðun á stjórnarskránni.

3.2. Færa endurskoðun stjórnarskrár frá Alþingi. Ungir jafnaðarmenn telja það ámælisvert að þingmenn Sjálfstæðisflokksins beittu málþófi til að standa gegn tillögum ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna um breytingar á stjórnarskránni fyrir Alþingiskosningarnar sl. vor. Þar með stóðu þeir í vegi fyrir að ný stjórnarskrá yrði samin á stjórnlagaþingi sem síðan yrði lögð undir þjóðaratkvæði. Með tillögum ríkisstjórnarinnar hefði almenningur haft ríkari aðkomu að stjórnarskrárgerð en áður hefur þekkst. Endurskoðun stjórnskipunarinnar hefur staðið til frá stofnun lýðveldisins, og tillögur ríkisstjórnarinnar voru viðleitni í þá átt að færa það verkefni frá Alþingi. Sagan sýnir að hugmyndir um slíka endurskoðun eiga iðulega lítinn hljómgrunn á Alþingi, vegna hagsmuna tengdum því að viðhalda hinu gallaða kerfi eins og það er. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins staðfestu tilveru þessara hagsmuna með því að standa gegn tillögum ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnarskránni í vor.

3.3. Kosningar til stjórnlagaþings 2010. Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að samhliða endurreisn efnahagslífsins fari fram enduruppbygging á trausti almennings til lýðræðis á Ísland. Vinna við endurskoðun á stjórnarskrá þolir enga bið og þó sjálfstæðismenn á Alþingi hafi staðið gegn ákvæði um stjórnlagaþing í stjórnarskrá, vilja Ungir jafnaðarmenn að kosið verði til stjórnlagaþings samhliða sveitarstjórnarkosningunum 2010. Stjórnlagaþingi verði falið að koma með tillögur um endurskoðun á stjórnarskránni þannig að breytingar geti orðið á stjórnarskrá í tengslum við næstu Alþingiskosningar sem verða væntanlega árið 2013. Ungir jafnaðarmenn eru þess fullvissir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, muni hið fyrsta leggja aftur fram frumvarp um stjórnlagaþing og treysta því að Alþingi afgreiði frumvarpið fljótt og vel.

3.4. Mannréttindi tryggð í stjórnarskrá. Ungir jafnaðarmenn vilja að frekari mannréttindi verði tryggð í stjórnarskrá. Í núverandi stjórnarskrá er kveðið á um ákveðin mannréttindi. Við endurskoðun á stjórnarskránni á að leggja sérstaka áherslu á að útfæra mannréttindakaflann þannig að efnahagslegum, menningarlegum og félagslegum mannréttindum sé gert miklu hærra undir höfði en nú er gert. Þá gæfi það sterkari skilaboð um vægi mannréttinda ef fjallað yrði um þau í fyrsta kafla stjórnarskrár en ekki þeim síðasta líkt og nú.

3.5. Aðskilnaður ríkis og kirkju. Ungir jafnaðarmenn vilja aðskilnað ríkis og kirkju sem fyrst. Ungir jafnaðarmenn telja að tilvist ríkiskirkju sé tímaskekkja á 21. öldinni og eðlilegt að við fyrsta tækifæri verið hafin vinna við að skilja á milli trúar og ríkisvalds. Tryggja verður jafnræði milli trúfélaga.

3.6 Jafnt vægi atkvæða. Ungir jafnaðarmenn vilja að fest verði í stjórnarskrá ákvæði um jafnt vægi atkvæða í kosningum til Alþingis. Það er birtingarmynd gríðarlegs ójafnræðis að við Alþingiskosningarnar 2009 hafi atkvæði greitt í Norðvesturkjördæmi haft meira en tvöfalt meira vægi en í atkvæði greitt í Suðvesturkjördæmi. Það samræmist ekki lýðræðishugsjónum nútímans að hvert atkvæði hafi ekki jafnt vægi. Íslendingar eiga því að fylgja ráðleggingum kosningaeftirlits ÖSE og leiðrétta þennan lýðræðishalla hið fyrsta.

3.7. Landið eitt kjördæmi. Ungir jafnaðarmenn vilja að í stað núverandi kjördæmaskiptingar verði landið eitt kjördæmi. Með núverandi kjördæmaskiptingu einkennir það starf margra þingmanna að þeir líti á sig sem hagsmunafulltrúa íbúa á ákveðnum landssvæðum. Alþingismenn eiga aftur á móti að vera kjörnir á þing til að sinna heildarhagsmunum þjóðarinnar og forgangsraða þannig að það gagnist íbúum landsins sem heild.

3.8. Þjóðaratkvæðagreiðslur og íbúakosningar. Ungir jafnaðarmenn vilja að tryggt verði í stjórnarskrá og lögum að þjóðin fái aðkomu að lagasetningu og stefnumörkun í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur og íbúakosningar. Ákveðinn hluti þjóðarinnar á að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið málefni. Þó má aldrei með þjóðaratkvæðagreiðslu skerða grundvallarmannréttindi. Sama á að eiga við á sveitarstjórnarstiginu þannig að ákveðinn hluti íbúa geti krafist íbúakosningar um tiltekið málefni. Tryggja verður jafnframt að Alþingi geti skotið lagafrumvarpi til þjóðarinnar til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og að breytingar á stjórnarskrá verði í framtíðinni lagðar undir þjóðaratkvæði.

3.9. Hlutverk ráðherra endurskoðað.Ungir jafnaðarmenn vilja að ráðherrar gegni ekki jafnframt þingmennsku. Til þess að tryggja sjálfstæði löggjafans gagnvart ríkisstjórninni þurfa þeir ráðherrar sem einnig eru þingmenn að víkja sæti og skulu varamenn þá kallaðir inn í þeirra stað. Að sitja á þingi er fullt starf og því er með öllu óeðlilegt að þingmenn hafi aðra atvinnu en þingsetu.

3.10 Aðkoma almennings að reglusetningu. Ungir jafnaðarmenn vilja aukið gegnsæi við reglusetningu framkvæmdavaldsins. Almenningur þarf að fylgja mörgum reglum sem ekki eru sprottnar frá Alþingi heldur frá ráðuneytum og öðrum stjórnvöldum. Ótal reglugerðir eru settar ár hvert en engin samræmd stefna er um aðkomu almennings að setningu slíkra reglna. Ungir jafnaðarmenn vilja að mörkuð verði stefna um gegnsæi við reglusetningu ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.

3.11. Hluverk stjórnmálaflokka Ungir jafnaðarmenn vilja að sett verði ákvæði um stjórnmálaflokka í stjórnarskrá. Í þessu ákvæði skal kveðið á um eftirfarandi:

 • Stjórnmálaflokkar taka þátt í pólitískri skoðanamyndun þjóðarinnar.
 • Stofnun þeirra skal vera frjáls.
 • Innra skipulag stjórnmálaflokka skal samsvara lýðræðislegum reglum
 • Þeir skulu gera opinberlega grein fyrir uppruna og notkun fjármuna sinna sem og eigna.

4. Ályktanir sveitarstjórnarmál

Jafn réttur og jöfn tækifæri allra íbúa landsins til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða er grundvallarforsenda þess að á Íslandi þrífist frjálst og réttlátt samfélag. Ójöfnuður hefur aukist mjög á síðustu árum, almannatryggingakerfið er úr sér gengið, skattkerfið óréttlátt, vinnutími meðal-fjölskyldunnar er of langur og mörg íslensk börn upplifa sig afskipt. Sveitarfélögin bera mikla ábyrgð og þurfa að byggja alla nærþjónustu á gildum jafnaðarstefnunnar.

4.1. Ungir jafnaðarmenn vilja að almenningssamgöngukerfið verði eflt og styrkt um allt land. Að almenningssamgöngur verði raunveruleiki á milli allra helstu þéttbýlisstaða og innan þeirra sveitarfélaga sem sameinuð hafa verið, þrátt fyrir miklar vegalengdir þeirra á milli, svo allir íbúar sveitarfélagsins njóti jafnrar stöðu.

Almenningssamgöngur og aðrir vistvænir ferðamátar verða undir í samkeppni við einkabílinn, meðal annars vegna skekktrar samkeppnisstöðu. Notendur einkabílsins njóta meiri athygli yfirvalda og er hyglt með ýmsum hætti. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að samkeppnisstaða annarra umhverfisvænni ferðamáta verði rétt af.

Til þess að almenningssamgöngur geti staðið undir nafni og séu ætlaðar öllum almenningi verður að bæta aðstöðu á biðstöðvum og í strætisvögnum. Sem stendur er fötluðu fólki með engu móti gert mögulegt að nýta almennar áætlunarferðir sem þó ætti að vera vel mögulegt í mörgum tilfellum. Allir vagnar á ferðum innanbæjar ættu að vera tröppulausir lággólfsvagnar og aðstaða á biðstöðvum aðgengileg fyrir fatlað fólk jafnt sem ófatlað fólk. Með slíkum umbótum væri ferðafrelsi fjölmenns hóps aukið til muna.
Það eru ótvíræðir hagsmunir í húfi fyrir þróun suðvesturhorns landsins, sem sameiginlegs atvinnu- og búsetusvæðis, að rekið sé eitt samstillt almenningssamgöngukerfi. Nýting vega, öryggi á vegum, minni loftmengun og jöfnun samkeppnisskilyrða eru meðal margra kosta þess að íbúar á svæðinu geti gengið að slíku kerfi sem vísu og nýtt sér það.

Lagðar verði fleiri forgangsakreinar fyrir strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt ber sveitarstjórnum í samstarfi við samgöngu- og umhverfisráðuneyti að stuðla að og styðja við gerð umhverfisvænnar samgöngustefnu á vinnustöðum.
Almenningssamgöngur eiga að vera gjaldfrjálsar, óháðar búsetu og ferðir tímasettar miðað við þarfir íbúa. Leiðakerfið og tæknilega innviði þarf jafnframt að bæta til að gera Strætó að fýsilegum kosti fyrir fleiri. Þörf er á aðkomu ríkisins að fjármögnun Strætó. Fyrsta og einfaldasta skrefið væri að fella niður virðisaukaskatt á farmiðum, olíu og tækjakosti strætisvagna.

Hönnun og skipulag byggðar innan þjónustusvæðis Strætó ætti að taka tillit til almenningssamgangna og hafa það að leiðarljósi að aðgengi að strætisvögnum sé eins auðvelt og hagkvæmt og mögulegt er. Við hönnun nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu er einkabílnum gert mun hærra undir höfði en öðrum ferðamátum, en rekja má til þessa mikla notkun á einkabílum. Bætt aðgengi að strætisvögnum er ein af forsendum þess að nýting þeirra aukist og því brýnt að líta til þess við hönnun nýrra hverfa.

4.2. Ungir jafnaðarmenn vilja stórátak í réttindamálum og réttindagæslu fólks með fötlun. Allt of lengi hefur grundvallarmannréttindum fólks með fötlun ekki verið sinnt sem skyldi. Slík vanræksla samræmist ekki hugmyndafræði jafnaðarstefnunnar og er brýnt að ríkisstjórn sem Samfylkingin á aðild að geri úrbætur hið snarasta. Mannréttindi fatlaðra eru ekki málefni sem snerta eingöngu þröngan hóp einstaklinga, heldur er þetta mikilvægur málaflokkur fyrir fjölda aðstandenda og augljóst að þetta aðgerðarleysi bitnar á endanum á samfélaginu öllu. Ungir jafnaðarmenn vilja að ríki og sveitarfélög standi við viljayfirlýsingu um tilfærslu þjónustu við fatlaða, frá ríki til sveitarfélaga, þrátt fyrir erfitt ástand í mörgum sveitarfélögum.

Aðalmarkmið flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga er að auka þjónustu við fatlaða. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verður einfaldari og skýrari og áhersla er lögð á að draga úr skörun verkefna þannig að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar þjónustu við fatlaða. Ungir jafnaðarmenn vilja jafnframt að stofnað verði embætti umboðsmanns fólks með fötlun líkt og Landssamtökin Þroskahjálp hafa bent á.

Ungir jafnaramenn vilja að öll sveitarfélög geri áætlun um bætt aðgengi fatlaðra að húsnæði í eigu sveitarfélaganna. Jafnframt skal ávallt tryggja aðgengi fatlaðra að almenningssamgöngum og þarfir þeirra hafðar að leiðarljósi, bæði við endurbætur og nýframkvæmdir.

4.3. Ungir jafnaðarmenn vilja að öll sveitarfélög marki sér stefnu varðandi málefni fólks af erlendum uppruna. Nauðsynlegt er að koma til móts við þær þarfir sem myndast þegar einstaklingar flytjast í nýtt samfélag og gera þeim kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Nauðsynlegar upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélaga á sem flestum tungumálum og útprentað efni fyrir þá sem ekki hafa aðgang að internetinu.

4.4. Ungir jafnaðarmenn vilja að öll sveitarfélög marki sér skýra stefnu í jafnréttis- og kvenfrelsismálum og samþætti hana við aðra málaflokka. Jafnframt að sveitarfélög leggi sín lóð á vogarskálar baráttunnar fyrir mannsæmandi launum fyrir hóflegan vinnudag. Þetta á ekki síst við þá hópa sem vinna að ýmsum þjónustustörfum, m.a. við umönnun og uppeldi á vegum sveitarfélaga þar sem konur eru í miklum meirihluta. Útrýma verður launamun kynjanna í störfum á vegum sveitarfélaganna.

4.5. Ungir jafnaðarmenn vilja að Samfylkingin beiti sér fyrir því að jafna hlut kynjanna í sveitarstjórnum landsins.

4.6. Ungir jafnaðarmenn vilja að sveitarfélög bjóði ókeypis foreldraráðgjöf og fræðslu sem miðast við ólíkan aldur og þarfir barna í öllum sveitarfélögum í samstarfi við heilsugæslustöðvar og menntastofnanir. Ráðgjöf vegna skilnaðar, bæði fyrir börn og fullorðna, á einnig að vera á verksviði sveitarfélaga.

4.7. Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á mikilvægi leikskólans. Leikskólinn er fyrsta skólastigið sem öll börn eiga rétt á að njóta. Metnaðarfullt starf í leikskólum er ómetanlegur stuðningur við það uppeldi sem foreldrar og fjölskyldur veita börnum sínum heima fyrir. Starfið sem fram fer í leikskólunum er mjög mikilvægt og oft vanmetið. Það leggur grunninn að framtíð barnanna. Ungir jafnaðarmenn vilja að öll börn eigi jafnan rétt á að sækja leikskóla og að hann fullnægi þörfum allra barna.
Leggja ber áherslu á að kynna börnum ólíkar listgreinar til að ýta undir skapandi hugsun. Það á ekki að fara eftir efnahag foreldra hvort börnin fái að sækja leikskóla. Til þess vilja ungir jafnaðarmenn að leikskólagjöld séu tekjutengd að hluta svo foreldar við lágtekjumörk þurfi ekki að greiða leikskólagjöld og með því tekið fyrsta skrefið að gjaldfrjálsum leikskóla. Enda ýtir leikskólavist undir samfélagslegan þroska barna, atvinnuþátttöku foreldra og skapar störf.

4.8. Ungir jafnaðarmenn leggjast alfarið gegn heimgreiðslum sveitarfélaga líkt og tíðkast í Kópavogi. Greiðslurnar draga mæður frekar en feður af atvinnumarkaði og vinna þannig gegn jafnrétti kynjanna og leikskólavist ýtir undir samfélagslegan þroska barna.

4.9. Ungir jafnaðarmenn vilja miklu betri fjarkennslu við framhalds- og háskóla á landinu svo að einstaklingar af landsbyggðinni geti sótt sér menntun gegnum internetið í sinni heimabyggð. Með því er hægt að auka fjölbreytileika í þekkingu, atvinnu og hækka menntunarstig á öllu landinu. Jafnframt vilja Ungir jafnaðarmenn að jöfnunarstyrkir til þeirra sem stunda nám á framhaldsskóla- eða háskólastigi fjarri sinni heimabyggð verði hækkaðir til að standa vörð um jafnan rétt allra til að sækja sér menntun. Mikilvægt er að styrkurinn sé raunhæfur svo hann greiði ferðakostnað til og frá lögheimili að minnsta kosti fimm sinnum á ári.

4.10 Ungir jafnaðarmenn vilja ganga í ESB til að styrkja sveitarfélögin um allt land. Mikilvægt er að vinna kröftuglega að því að nýta þau tækifæri sem eru allt í kringum landið. Að þessu þurfa ríki og sveitarfélög að vinna saman. Aðildin að ESB getur veitt stuðning í þeirri baráttu. Með styrkjum úr byggðasjóði ESB til atvinnuuppbyggingar, endurmenntunar og nýsköpunar má jafna stöðu ýmissa svæða og jafnframt jafna fjárhagslega og félagslega stöðu íbúa.

4.11 Ungir jafnaðarmenn vilja minna á að mikilvægt er að skilgreina þá þjónustu sem sveitarfélögum ber að bjóða og hvort hún skuli greidd að hluta eða öllu leyti af almennum skatttekjum. Þjónustugjöld á ekki að innheimta vegna reksturs skóla, leikskóla og nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. Því er afar brýnt að skilgreina vel þá grunnþjónustu sem kosta skal með skattfé þegar verkefni eru flutt milli stjórnsýslustiga þannig að unnt verði að áætla tekjustofna til slíkra verkefna.
Mjög mikilvægt er að ríkisstjórn og þingmenn klári hið fyrsta viðræður um tekjustofna til að standa straum af gjaldfrjálsum grunn- og leikskóla miðað við ákveðna þjónustu sem þar yrði veitt. Á næstu misserum er nauðsynlegt að sveitarfélög tryggi að öll börn fái heita skólamáltíð óháð efnahag foreldra.

4.12 Ungir jafnaðarmenn vilja tryggja öllum þátttöku í íþróttum og tómstundum. Þátttaka í íþróttum og öðru tómstundastarfi hefur mikið forvarnargildi. Leggja ber áherslu á að efla slíkt starf í samvinnu við menntastofnanir, ungmennafélög og önnur félagasamtök. Reynt skal að svara ólíkum þörfum ungmenna sem og þeirra sem eldri eru. Ungmennaráð skipuð ungu fólki verði sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks og leitast skal við að efla umfjöllun í yfirstjórnum sveitarfélaga um málefni barna og unglinga.

4.13. Ungir jafnaðarmenn vilja að nemendum í 1.-4. bekk verði boðið upp á aukna fjölbreytni í listnámi og öðru tómstundastarfi innan grunnskólans, heimilunum að kostnaðarlausu.

4.14. Ungir jafnaðarmenn líta á umhverfis- og náttúruvernd sem óaðskiljanlegan hluta af farsælli samfélagsþróun og forsendu þess að skapa fólki vænleg lífsskilyrði hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ungir jafnaðarmenn líta svo á að í sveitarfélögum verði sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Sveitarfélög leggi fram metnaðarfull markmið og kapp sé lagt á að ná þeim fram líkt og hafið er með Staðardagskrá 21. Forsenda þess að svo megi verða er að almenningur sé vel upplýstur og geri markmið sveitarfélagsins að sínum, hvort sem er í leik eða starfi. Sjálfbær þróun er framtíðarstefna sem Ungir jafnaðarmenn treysta á til að byggja upp sterkara samfélag á hverjum stað fyrir sig.

4.15 Ungir jafnaðarmenn vilja sameiningu sveitarfélaga.Sameining getur rutt brautina fyrir betri nýtingu fjármuna, skynsamari ráðstöfun landgæða og almennt auknum gæðum í hinu manngerða umhverfi. Þá myndi hún án efa auðvelda hagræðingu á sviðum samgangna, skólastarfs, félagslegra úrræða, löggæslu, brunamála, heilsugæslu ofl., öllum íbúum til hagsbóta. Mikilvægt er þó að viðhalda því þjónustustigi sem til staðar er í sveitarfélaginu.

Ungir jafnaðarmenn vilja sjá öflug hverfaráð í stærri sveitarfélögum sem hefðu með mál hvers hverfis að gera. Hverfaráðin gætu tekið fyrir málefni hverfisins og þannig yrði þjónustan, umsýslan og ákvarðanatakan nálægt íbúunum. Ná mætti fram mörgum kostum sameiningar á höfuðborgarsvæðinu með ítarlegu og samþætti svæðisskipulagi. Því ætti að auka veg og virðingu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.

4.16 Ungir jafnaðarmenn hafna persónukjöri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2010. Ástæður þess eru hve stuttur fyrirvari er á málinu og ítarleg útfærsla ekki tilbúin.

5. Ályktanir um atvinnumál og nýsköpun

Þrátt fyrir þær hörmungar sem dunið hafa á íslensku atvinnulífi má ekki horfa framhjá þeim styrku undirstoðum sem atvinnulífið hvílir á. Ályktanir um atvinnumál ber eins og aðrar að lesa í samhengi við fyrri ályktanir UJ.

5.1.Sveigjanleiki í þágu launþega
Ungir jafnaðarmenn horfa til breyttrar forgangsröðunar og hlutverks launþega við skilgreiningu réttar þeirra. Almennt vinnur fólk nú fleiri störf á starfsferli sínum en áður tíðkaðist. Störfin eru fjölbreyttari, miðast meira við sérhæfingu hvers og eins og standa skemur yfir. Þá ber að hafa í huga að almennt er starfsfólki gefin meiri ábyrgð og heimild til að taka fleiri ákvarðanir upp á eigin spýtur.

Breyttar aðstæður í tilteknum atvinnugreinum kalla á að lögð sé áhersla á réttindi fólks til sveigjanleika og að réttindin fylgi fólki gegnum fjölbreyttan starfsferil.
Sveigjanleiki þarf að taka til frelsis innan vinnudagsins, yfir starfsævina og milli þeirra landa sem fólk flytur sig til að starfa.

5.2. Auðlindir í þágu þjóðar
Við útdeilingu nýtingarréttar takmarkaðra auðlinda á sjó, neðanjarðar og ofanjarðar ætti að byggja á sömu hugmyndafræði. Byggja skal á kerfi sem tryggir gegnsæi í rekstri einkaaðila sem takast á við úrvinnslu auðlinda.

Dreifing nýtingarréttar skal þó vera í höndum opinberra aðila að öllu leyti og skal allur hagnaður af útdeilingu réttinda falla sameiginlegum sjóðum í skaut til að standa straum af eftirliti. Kerfi framseljanlegra heimilda eru vel möguleg en verða að byggja á skýrum skilyrðum um tímabundin yfirráð einkaaðila yfir þeim heimildum. Takmarkanir á notkunarrétti skulu ávallt miðast við sjálfbæra nýtingu auðlindanna.

Hvatt er til þess að félagsleg markmið séu mjög vel skilgreind eigi að ná nokkrum slíkum með notkun náttúruauðlinda. Þá sé tryggt að annar stuðningur sé jafnframt til staðar svo nýtingarrétturinn einn standi ekki fyrir öllum félagslegum markmiðum sem eigi að ná. Taka má dæmi af sjávarútvegi og landbúnaði til útskýringar:
A: Landbúnaðarkerfið virðist hafa það eitt að markmiði að ná mjög óskilgreindum félagslegum markmiðum um búsetu, atvinnuhætti og fjölskylduform.
B: Fiskveiðistjórnunarkerfinu er kennt um alvarlega byggðaröskun sem kerfinu var þó ekki ætlað að standa gegn. Milli þessara tveggja öfga hlýtur að vera til skynsamlegri og skilvirkari lausn.

5.3. Sameining atvinnuvegaráðuneyta og styrkjakerfis þeirra
Ungir jafnaðarmenn hvetja ríkisstjórnina áfram í þeirri stefnu sinni að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Gefst þá jafnframt tækifæri til að sameina og einfalda fjöldann allan af styrktarsjóðum undir stjórn einnar stofnunar sem ber faglega ábyrgð á dreifingu fjár. Samkeppnissjóðir sem úthlutað er úr á opinn, faglegan og gegnsæjan hátt eru eina rökrétta leiðin fyrir jafnaðarmannastjórn til að deila fjármagni til einkaaðila. Markmiðið með sjóðunum skal vera að auka verðmætasköpun og að hvetja til framtakssemi þar sem hennar er sérstaklega talin þörf. Sjálfstæð dreifing ráðherra á fé til nýsköpunar- og framfaraverkefna ætti að heyra sögunni til. Menningarstofnanir ættu að vera undir sömu sök seldar sbr. fyrri ályktun UJ.

5.4. Græn atvinna
Ungir jafnaðarmenn vilja byggja upp atvinnuvegi sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Ísland hefur ennþá gott orð á sér fyrir skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og nærgætni í umgengni við náttúruna. Það orðspor ber að vernda og styrkja svo atvinnulífið geti byggt á þeirri ímynd til framtíðar.

Þarfir hagkerfisins fyrir fjölbreyttari og styrkari stoðir ríma vel við ákall um uppbyggingu hins græna hagkerfis. Ísland á að taka þau skref sem þarf til að verða sjálfbært um alla orku. Þá ætti að notfæra til hins ýtrasta þau tækifæri sem gefast við undirritun loftslagssáttmála SÞ til að byggja upp atvinnustarfsemi sem sáttmálinn leiðir af sér.

Orkufyrirtæki sem starfa í almannaþágu eiga ekki að þurfa að sætta sig við boð frá stökum orkukaupendum án tillits til lengdar virðiskeðju þeirra hér á landi. Meta þarf alla þá sem vilja kaupa orku á stóriðjukjörum með tilliti til þess hve mikil vinnsla fer fram hér á landi, hvort auka eigi virði hráefnis hér á landi og hvort starfsstöðin geti af sér störf í þekkingargreinum og vísindum.

Þótt Íslendinga þyrsti í erlendar fjárfestingar er engin ástæða til að gefa afslátt af kröfum um sterkt og fjölbreytt atvinnulíf fyrir aukinn hraða í ákvarðanatöku.

5.5. Græn byggð
Ungir jafnaðarmenn vilja að í framtíðinni verði nýbyggingar á Íslandi sem allra umhverfisvænastar. Sömuleiðis skuli skipulag byggðar vera eins umhverfisvænt og kostur er. Stofnanir ríkisins sem láta sig húsbyggingar varða og umhverfisráðherra ættu að setja af stað vinnu við að skilgreina vistvæna byggð svo hægt sé að nota þau viðmið þegar byggingamarkaðurinn hefur rétt úr kútnum.

5.6. Opin gögn
Í tilefni af fréttum um gagnavinnslu úr fyrirtækjaskrá ítreka Ungir jafnaðarmenn ályktun sína frá fyrra ári um upplýsingafrelsi. Hvatt er til þess að ríkisstjórnin setji í gang verkáætlun til að opna gagnakistur ríkisins til að tryggja gagnsætt Ísland.

5.7. Ísland skal vera fyrsta landið sem velur opinn hugbúnað
Ungir jafnaðarmenn vilja auka veg og virðingu frjáls hugbúnaðar. Við innleiðingu á hugbúnaði skal leitast við að finna frjálsa hugbúnaðarlausn. Stofnanir eru að fjárfesta í hugbúnaði fyrir skattfé og því er sjálfsögð krafa um að fjármunir í hugbúnaðarkerfi séu nýttir á sem bestan hátt fyrir samfélagið. Með því að velja frjálsan hugbúnað og setja fjármuni í þjónustusamninga um hugbúnaðinn og í áframhaldandi þróun hans, þá er verið að skapa verðmæti fyrir samfélagið, í stað þess að eyða fjármunum í erlend hugbúnaðarleyfi sem skilja eftir sig engan virðisauka. Verðmætin sem skapast eru fleiri störf hér á landi fyrir fagfólk og stofnanir geta nýtt í meira mæli hugbúnaðarlausnir sem aðrar stofnanir hafa látið þróa.

Kostnaður ríkisins vegna hugbúnaðarleyfa hleypur á milljörðum. Þetta eru milljarðar sem streyma útúr landinu og koma aldrei aftur. Grípa ætti til aðgerða til að hindra þetta útstreymi gjaldeyris hið fyrsta.

Ungir jafnaðarmenn hvetja íslensk hugbúnaðarfyrirtæki að skoða vel hvort viðskipaáætlun sem byggir á frjálsum hugbúnaði sé ekki mun álitlegri en að reka fyrirtækið á leyfisgjöldum.

5.8. Rafræn þjónusta til einföldunar og hagræðingar
Ungir jafnaðarmenn hvetja stofnanir landsins til að gera alla sína ferla rafræna. Rafræn samskipti við almenning og á milli stofnana munu skapa mikla hagræðingu. Mikið óhagræði er af samskiptum sem fara fram á pappír, í síma, eða með ferðalögum á afgreiðslustaði. Nauðsynlegt er að nýta betur starfskrafta sem fara í dag í að stimpla inn gögn af pappír inn í tölvukerfi. Þá er mjög mikið þjóðfélagslegt hagræði af því að minnka tíma sem fer í ferðir til afgreiðslustaða. Þá skapa stofnanir sér betri ímynd og eru Ríkisskattstjóri, Íbúðalánasjóður og Tryggingastofnun gott dæmi þar um. Þá hafa þessar stofnanir sparað miklar fjárhæðir vegna bréfasendinga sem hafa verið mjög lágmarkaðar.

Ríkisstjórnin ætti við fyrsta tækifæri að koma sér upp viðurkenndri stafrænni samskiptaleið milli stofnana Ríkisins og borgaranna. Öllum ætti að gefast kostur á að skrásetja öruggt tölvupóstfang sem helstu móttökuleið skilaboða frá hinu opinbera.