Fréttir af landsþinginu:

Anna Pála endurkjörin formaður Ungra jafnaðarmanna
Landsþingið ‘08: Frambjóðendur

Ályktanir Landsþings Ungra jafnaðarmanna 2008

Einnig hér í PDF skjali

Ungir jafnaðarmenn krefjast tafarlausra aðildarviðræðna við Evrópusambandið

Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu að allra ráða verði leitað til að styrkja stoðir efnahagskerfisins. Umræðan og efnahagsástandið á síðustu mánuðum hefur opnað augu margra fyrir ótvíræðum kostum aðildar að Evrópusambandinu. UJ telja að aðildarviðræður um inngöngu í ESB myndu lægja öldurót í efnahagslífinu og senda skýr skilaboð út í hið alþjóðlega viðskiptaumhverfi. Þetta myndi styðja við íslensku krónuna og stjórn efnahagsmála hér á landi og undirbúa þannig jarðveginn fyrir upptöku Evrunnar. Ungir jafnaðarmenn voru fyrsta stjórnmálahreyfingin á Íslandi til að álykta um að hefja skuli aðildarviðræður við  Evrópusambandið. Það er því fagnaðarefni fyrir hreyfinguna hversu margir vilja nú stefna í þá átt. Ungir jafnaðarmenn krefjast því tafarlausra aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

a) Evran
Ungir jafnaðarmenn harma að almenningur í landinu sé látinn bera tapið af lélegri efnahagsstjórn og ofþenslu síðustu ríkisstjórna. Frá því að  Seðlabanki Íslands tók upp flotgengisstefnu með verðbólgumarkmiði árið 2001 hafa Ungir jafnaðarmenn ávallt bent á kosti þess að taka upp Evruna. Íslenska krónan hefur siglt ólgusjó frá því að flotgengisstefnan var tekin upp og skipað sér kyrfilega í flokk óstöðugustu gjaldmiðla heims. Frá síðustu áramótum hefur hún rýrnað um meira en helming gagnvart helstu viðskiptamyntum Íslands með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir heimilin í landinu. Á sama tíma býr almenningur við hæstu stýrivexti sem þekkjast í hinum vestræna heimi og mestu verðbólgu sem mælst hefur í áratugi.

Á þeim sjö árum frá því núverandi kerfi var sett á laggirnar hefur það opinberað sig sem ónýtt stjórntæki og ófært um að styðja við íslenskt efnahagslíf til lengri tíma. Ungir jafnaðarmenn telja að stjórn peningamála hafa beðið skipbrot og krefjast þess að ríkisstjórn Íslands hefji þegar í stað vinnu, fyrir opnum tjöldum, sem leiði til upptöku Evrunnar.

b) Hvers vegna innganga í Evrópusambandið?
Með aðild að Evrópusambandinu hefði Ísland áhrif á þá löggjöf sem landið tekur nú þegar upp vegna EES-samningsins. Í dag innleiðir Alþingi mikið af löggjöf ESB án þess að hafa áhrif á ákvarðanatökuferlið.
Viðskiptaumhverfið hér á landi myndi breytast til hins betra við inngöngu í ESB. Þrátt fyrir aðgang Íslands að innri markaði sambandsins vegna EES-samningsins eru ennþá viðskiptahindranir milli Íslands og sambandsins. Við aðild að ESB myndu tollar innan sambandsins falla niður og viðskipti aukast. Matarverð kæmi til með að lækka og upptaka Evrunnar myndi lækka vexti og viðskiptakostnað.

Sjávarútvegsstefna ESB grundvallast á veiðireynslu aðildarþjóða sambandsins og standa Íslendingar sterkir að vígi innan íslenskrar lögsögu, eins og gefur að skilja. Eins og lesa má í áliti fulltrúa Samfylkingarinnar í skýrslu forsætisráðuneytisins um Evrópumál frá því fyrr á árinu eru allar líkur á að sjávarútvegi Íslendinga væri betur borgið innan Evrópusambandsins en utan. Að auki, ef litið er til aðildarsamninga Möltu, sést að afar líklegt er að Ísland fái full yfirráð yfir staðbundnum fiskistofnum í íslenskri landhelgi. Innan ESB yrði Ísland ein sterkasta sjávarútvegsþjóð sambandsins og hefði áhrif sem því næmi.

Þá benda Ungir jafnaðarmenn á að við inngöngu í Evrópusambandið yrði opnað fyrir innflutning á landbúnaðarafurðum frá aðildarríkjunum og íslenskir bændur gætu óhindrað flutt út afurðir á innri markað sambandsins.

Mikið fjármagn fer í að efla vísinda- og rannsóknarstarf innan sambandsins og þar eru menntamál í öndvegi. Við inngöngu í ESB myndu íslenskir námsmenn greiða sambærileg skólagjöld í háskólum í til dæmis Bretlandi og aðrir Evrópubúar.

Launafólk nyti góðs af félagsmála- og vinnulöggjöf ESB. Ríki ESB hafa aðgang að sjóðum til styrktar samgöngum, einkum í dreifbýli. Það hefði jákvæð áhrif á vaxandi ferðaþjónustu landsins og myndi styrkja byggðir þess.

Ekki síður vilja Ungir jafnaðarmenn minna á að Evrópusambandið hefur haft forystu í baráttunni gegn loftslagsbreytingum á heimsvísu. Aðildarríki sambandsins ætla sér meðal annars að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 20 prósent fyrir árið 2020. Þetta er ágætt dæmi um að til þess að alþjóðasamfélagið vinni vel saman er líka nauðsynlegt að svæðisbundin samvinna sé náin.

Evrópusambandið er einnig sá aðili sem gefur mest til þróunarhjálpar í heiminum, enda byggir sambandið á gildum um virðingu fyrir mannréttindum og lýðræði og stuðlar að útbreiðslu á þeim gildum um allan heim.

Ungir jafnaðarmenn fagna óháðri utanríkisstefnu
Þeim merka áfanga hefur nú verið náð að ríkisstjórn landsins hefur í fyrsta sinn mótað sér óháða stefnu í utanríkis- og varnarmálum, og tekur ekki tillit til sérstaks sambands við Bandaríkin. UJ lýsa ánægju með að þátttaka í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sé nú á forsendum Íslendinga.
Óháðar rannsóknir og skoðanamyndun á utanríkismálum eru forsenda þess að Íslendingar geti metið hagsmuni sína rétt, tekið upplýstar ákvarðanir og varið hagsmuni þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Því fagna UJ þeirri uppbyggingu á utanríkisþjónustunni sem farið hefur fram á kjörtímabilinu.

En betur má ef duga skal. Útþensla NATO og áætlanir um eldflaugavarnir ógna þeim árangri sem náðst hefur í kjarnorkuafvopnun og ýta undir spennu í alþjóðasamskiptum og aukin hernaðarútgjöld. Ungir jafnaðarmenn skora á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því að Bandaríkin dragi til baka uppsögn sína á ABM-sáttmálanum um takmarkanir við gagneldflaugakerfum og leggi allar áætlanir um slíkt á hilluna. Þá skora Ungir jafnaðarmenn á stjórnvöld að gera baráttu gegn kjarnorkuvopnum og öðrum vígbúnaði að forgangsatriði í utanríkisstefnu sinni.

Ungir jafnaðarmenn vilja frjálsa, sjálfstæða Palestínu
Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að Alþingi Íslendinga viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt ríki, líkt og Ísrael. UJ styðja frjálsa Palestínu innan landamæranna sem mörkuð voru árið 1967.
UJ undirstrika að ástandið á Gasa-svæðinu er grafalvarlegt. Ísraelsríki hefur lokað leiðum inn og út af svæðinu og þjást íbúar vegna skorts á vatni, mat, lyfjum og rafmagni. UJ krefjast þess að aðskilnaðarmúrinn í Palestínu verði tafarlaust rifinn, Ísrael hætti að byggja nýjar landránsbyggðir á palestínsku landi og hverfi frá þeim byggðum sem þar eru. UJ krefjast þess einnig að Palestínumenn endurheimti grundvallarmannréttindi á borð við ferðafrelsi og að allir vegatálmar og eftirlitsstöðvar verði fjarlægðar.

UJ fordæma það ofbeldi sem báðir aðilar deilunnar beita. UJ líta svo á að Ísraelsríki hafi yfirhöndina í deilunni og valdið til þess að koma á friði. Friður verður aldrei að veruleika á meðan Ísraelsríki brýtur gegn alþjóðalögum, ályktunum Sameinuðu þjóðanna og mannréttindum. UJ samþykkja aldrei að fólk sé fangelsað fyrir skoðanir sínar og fordæma aðgerðir Ísraelsríkis þess efnis. Friði verður ekki komið á með hernaði. Sem ungir jafnaðarmenn trúum við að lýðræði sé leiðin að friði.

UJ skora á öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að grípa til viðeigandi ráðstafana gagnvart Ísrael. Fái Ísland sæti í öryggisráðinu ber því að þrýsta á aðgerðir. Slíkar aðgerðir ættu að fela í sér viðurkenningu á sigri Hamas í síðustu kosningum í Palestínu og þátttöku leiðtoga Hamas í friðarviðræðum. Alþjóðlegum viðskiptahindrunum gagnvart heimastjórninni verður að linna.

Kjarnorkuvopnaeftirlit fyrir alla
Ungir Jafnaðarmenn krefjast þess að íslenska ríkið beiti sér á fyrir því alþjóðavettvangi að öll lönd sitji við sama borð þegar kemur að eftirliti með  kjarnorkuvopnum. Með þetta að leiðarljósi á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir því að meint kjarnorkuvopnaeign Ísraela sem og tilraunir Írana til að framleiða sín eigin, verði rannsökuð. UJ telja ekki síður mikilvægt að efla eftirlit með kjarnorkuvopnaeign núverandi kjarnorkuvelda á borð við Bandaríkjanna, Frakklandi og Rússlandi. Þannig vilja UJ að öll lönd sitji við sama borð þegar kemur að kjarnorkuvopnum og virði reglur og samninga sem samþykktir hafa verið á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna.

Ungir jafnaðarmenn vilja landsskipulag
Landsþing Ungra jafnaðarmanna styður hugmyndir um landsskipulagsáætlun.
Landsskipulag er áhrifaríkt tæki til að meta og bera saman hagsmuni þvert á sveitarfélagamörk og málaflokka.

UJ telja ótækt að einstök sveitarfélög geti farið fram með umdeildar og óafturkræfar skipulagsbreytingar sem ganga þvert gegn hagsmunum nágrannasveitarfélaga og jafnvel landsmanna allra. Þó skilja Ungir jafnaðarmenn þær áhyggjur sem sveitarfélög hafa af sjálfsákvörðunarvaldi sínu. Gæta verður hófs í beitingu skipulagsvaldsins.

Landsskipulag yrði góður vettvangur fyrir stjórnvöld til að setja fram með ótvíræðum hætti stefnu sína í náttúruverndar-, virkjana-, iðnaðar- og samgöngumálum. Þá er víst að landsskipulag myndi gagnast við skipulagningu stórra svæða þar sem ekki er þó þörf á nákvæmu svæðisskipulagi. Sem dæmi mætti nefna svæðið frá Reykjanesi að Ölfusi.

Ungir jafnaðarmenn kjósa almenningssamgöngur fram yfir einkabíla
Ungir jafnaðarmenn vilja að almenningssamgöngukerfið verði eflt og styrkt.
Notendur strætó eiga að ferðast án þess að greiða fargjald og það án tillits til lögheimilis. Leiðakerfið og tæknilega innviði þarf að bæta til að gera strætó að fýsilegum kosti fyrir fleira fólk og gera fötluðu fólki kleift að nota strætó. Þörf er á aðkomu ríkisins að fjármögnun strætó. Fyrsta og einfaldasta skrefið væri að fella niður virðisaukaskatt á farmiðum, olíu og tækjakosti Strætó bs.

Almenningssamgöngur og aðrir vistvænir ferðamátar verða undir í samkeppninni við einkabílinn meðal annars vegna skekktrar samkeppnisstöðu. Einkabílar og ökumenn njóta meiri athygli yfirvalda og er hyglt með ýmsum hætti. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að samkeppnisstaða þessarar ferðamáta verði rétt af með því að ríkisstofnanir hætti niðurgreiðslu á bílastæðum fyrir starfsfólk sitt. Lagðar verði fleiri forgangsakreinar fyrir strætó á höfuðborgarsvæðinu. Þá ætti að stuðla að og styðja við gerð samgöngustefnu á vinnustöðum.

Það eru ótvíræðir hagsmunir í húfi fyrir þróun suðvesturhorns landsins sem sameiginlegs atvinnu- og búsetusvæðis að rekið sé eitt samstillt almenningssamgöngukerfi. Nýting vega, öryggi á vegum, minni loftmengun og jöfnun samkeppnisskilyrða eru meðal margra kosta þess að íbúar á svæðinu geti gengið að slíku kerfi sem vísu og nýti það.

Áríðandi er að sátt takist um gjaldskrá og fjármögnun Strætó bs. Hlutverk höfuðborgarinnar sem miðstöð æðri menntunar á landinu verður ekki raunverulegt nema að aðstaða allra stúdenta sé jöfn gagnvart svo mikilvægri þjónustu fyrir stúdenta sem almenningssamgöngur eru. Deilur um þátttöku í Frítt í Strætó verkefninu sýna að sátt verður að vera um fjármögnun verkefnisins. Uppbygging gjaldskrár Strætó þarf að vera samræmd, sanngjörn og taka mið af langtímamarkmiðum og rekstri Strætó bs. til lengri tíma.

Til að almenningssamgöngur geti staðið undir nafni og séu ætlaðar öllum almenningi verður að taka tillit til þess í aðstöðu á biðstöðum og í vögnum. Sem stendur er fötluðu fólki með engu móti gert mögulegt að nýta almennar áætlunarferðir sem þó ætti vel að vera hægt í mörgum tilfellum. Allir vagnar á ferðum innanbæjar ættu að vera lággólfsvagnar og aðstaða á biðstöðvum með þeim hætti að fólk komist leiðar sinnar örugglega, fatlað fólk jafnt sem ófatlað fólk. Í dag er með engu móti hægt að ganga að því sem vísu. Um mikla aukningu á ferðafrelsi væri að ræða fyrir stóran hóp fólks.

Til að auka nýtingu strætisvagna þarf að auka tíðni ferða og bjóða notendum upp á góða aðstöðu sem tekur sérstakt mið af íslenskum aðstæðum. Á háannatíma ætti tíðni allra ferða að vera minnst 10 mínútur og örar á stofnleiðum. Aukin tíðni ferða er sú aðgerð sem mest myndi skila fyrir aðsókn að kerfinu að mati Ungra jafnaðarmanna. Í dag er ástandið þannig að ekki eru biðskýli við allar biðstöðvar hér á landi. Það verður að teljast algjör lágmarkskrafa að lokið verði við uppsetningu biðskýla hið snarasta á hinu veðursæla Íslandi.

Hönnun og skipulag byggðar innan þjónustusvæðis Strætó ætti að taka tillit til almenningssamgangna og hafa það að leiðarljósi að aðgengi að strætisvögnum sé eins auðveld og hagkvæm og mögulegt er. Við hönnun nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu er einkabílnum gert mun hærra undir höfði en öðrum ferðamátum og má til þess rekja mikla notkun á einkabílum. Bætt aðgengi að strætisvögnum er ein af forsendum þess að nýting þeirra batni og verður að líta til þess við hönnun nýrra hverfa.

Ungir jafnaðarmenn vilja upplýsingafrelsi
Landsþing UJ ályktar að setja skuli af stað áætlun sem miðar að því að opna fyrir aðgang að gögnum í umsjá opinberra fyrirtækja og stofnanna sem kunna að nýtast í vísindalegum rannsóknum.
Ríkisstofnanir og fyrirtæki safna með skipulegum hætti upplýsingum um ýmislegt sem kemur landi og þjóð við. Aukið og opið aðgengi að slíkum upplýsingum er lífsnauðsynlegt frjóu rannsóknarumhverfi og er vísindunum í hag.  Gagna- og upplýsingasöfnun sem hefur verið fjármögnuð af skattfé er með réttu eign íslensks almennings og á því að vera aðgengileg almenningi án hindrana, að teknu tilliti til persónuverndar og sambærilegra atriða. Samkeppnisforskot landa ákvarðast að miklu leyti af aðgengi vísindamanna að upplýsingum. Opnun gagnagrunna til frjálsra nota er hagkvæmari en sala gagna til handa einum í einu. Sem dæmi má nefna upplýsingar Vatnamælinga, Fjármálaeftirlitsins, Landmælinga og Hafrannsóknarstofnunar. Íslendingar kæmu til með að sjá mörg álitamál í öðru og nýju ljósi fengju sjálfstæðir vísindamenn frjálsan aðgang að hinum ýmsu gögnum og upplýsingum.

Ungir jafnaðarmenn vilja betri vinnubrögð við skipulag höfuðborgarsvæðisins
Bæta þarf samstarfsgrundvöll sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kann að vera sá vettvangur áfram en ábyrgðarhlutverk, virkni og rannsóknarvinna á þess vegum þarf að efla til muna.

Nú þegar eitt mesta vaxtarskeið höfuðborgarsvæðisins er að baki gefst yfirvöldum tækifæri til að læra af því sem vel hefur farið og því sem illa hefur farið.

Ljóst er að vegna hins mikla vaxtar sveitarfélaga með tilheyrandi álagi á umferðarkerfi borgarinnar og ágreinings um nýtingu sameiginlegra gæða svo sem náttúrusvæða er þörf á endurskoðun á tilhögun skipulags á svæðinu.

Þörf er á áreiðanlegra sameiginlegu skipulagi og virkari stefnumótun en gert er undir núverandi kerfi. Þörf er á mun virkari samskiptum milli sveitarfélaga um skipulagsmál og vettvangi til að taka ákvarðanir.
Vegna mikilvægi þjóðvega í samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins er einnig æskilegt að ákvarðanir um uppbyggingu samgöngukerfisins verði færðar nær íbúum svæðisins og þær ákvarðanir teknar í samræmi við skipulagsákvarðanir. Vegagerð á höfuðborgarsvæðinu ætti í þessu ljósi að heyra undir sveitarfélögin og samgönguráðherra í sameiningu fremur en samgönguráðherra eingöngu eins og nú er.

Ungir jafnaðarmenn vilja Ísland sem vísindasamfélag
Ungir jafnaðarmenn telja að standa þurfi betur að uppbyggingu starfa fyrir vel menntað fólk svo mannauður Íslendinga fái notið sín. Þá eru fjölbreytt störf í vísindum, rannsóknum og frumkvöðla starfsemi nauðsynleg til að Ísland verði ekki undir í samkeppni ríkja heims um hæfileikaríkt fólk. Íslendingar ættu að opna dyr sínar fyrir erlendu hæfileikafólki sem auðgað getur íslenskt atvinnu- og vísindalíf.

Ungir jafnaðarmenn minna á stefnu Samfylkingarinnar um Nýja atvinnulífið þar sem meðal annars var sett markmið um 5.000 ný störf í hátæknigeiranum á næstu 10 árum. Mikil tækifæri eru í því að gera Ísland að þekkingar- og vísindasamfélagi.

Skapa þarf skilyrði fyrir bæði erlendar og innlendar fjárfestingar í nýsköpun ásamt góðu rekstrarumhverfi fyrir sprotafyrirtæki.

Mikilvægt er að iðnfyrirtæki sem hér starfa leitist við að auka virði framleiðslu sinnar sem fremst er hægt. Sérstaklega má benda á það gríðarmikla magn óverkaðs áls sem fer úr landi á ári hverju. Erlendu álrisarnir stunda hvorki grunnrannsóknir í málmvinnslu né vinna áfram vörur úr því áli sem hér er framleitt. Þessi vandamál eru okkur Íslendingum allt of kunn úr fiskvinnslunni þar sem skortur á virðisauka var um langt skeið vandamál.

Ungir jafnaðarmenn vilja Netríkið Ísland
Ungir jafnaðarmenn hvetja stofnanir og sveitarfélög til þess að efla enn frekar rafræna þjónustu til almennings. Allir þekkja hversu mikil bylting það var fyrir almenning þegar netframtal skattstjóra ríkisins kom til sögunnar. Mikil hagræðing hefur orðið hjá þeim aðilum sem komnir eru langt á veg með rafræna þjónustu. Netríkið Ísland er stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2008 – 2012. Er það von Ungra jafnaðarmanna að Alþingi tryggi fjármuni í þessa framkvæmdaáætlun, öll fjögur árin. Rafræn skilríki á debetkortum eru handan við hornið og þá mun krafa almennings um rafræna þjónustu aukast til muna. Opinberar stofnanir eiga að vera gegnsæjar og öll þjónusta þeirra aðgengileg almenningi í gegnum netið.
Í þessu ljósi má minna á smartkortakerfið sem Reykjavíkurborg hefur unnið að í áraraðir. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að reynt verði eftir fremsta megni að bjarga því sem bjargað verður úr því kerfi og því komið í notkun sem fyrst.

Ungir jafnaðarmenn vilja Einfaldara Ísland
Ungir jafnaðarmenn minna á þá góðu aðgerðaáætlun Einfaldara Ísland frá árinu 2006 og á að ljúka árið 2009. Hefur samráðshópurinn meðal annars gefið út handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Er samráðshópurinn hvattur til að halda krafti í sínu góða starfi. Nauðsynlegt er að gera regluverk ríkisins gagnsærra. Nær vonlaust er að lesa í gegnum margfaldar breytingar á reglugerðum þar sem einungis er greint frá breytingum. Allir aðilar sem vinna eftir reglugerðum verða að túlka þær á sama hátt. Þær verða að vera skýrar og gefnar út í heild sinni með breytingum. Reglugerðir og lög verða að vera skrifaðar á ótvíræðan hátt. Þá er samráðshópurinn hvattur til að huga sérstaklega að því að einfalda þá þjónustu sem ríkið veitir almenningi.

Öflugt velferðarkerfi er forsenda öryggis og efnahagslegrar velgengni
Áhrif efnahagskreppunnar sem blasir við heimsbyggðinni um þessar mundir á þjóðir heims sýnir að öflug velferðarsamfélög standa síst höllum fæti í efnahagslegum skilningi. Þvert á móti bendir allt til þess að velferðarsamfélög Norðurlandanna séu best í stakk búin til að standast efnahagslegar þrengingar á meðan Bandaríkin – vagga nýfrjálshyggjunnar – riða til falls. Það sést best á þeim miklu ríkisinngripum sem þar hafa verið á undanförnum vikum og eiga sér engin fordæmi á síðari tímum.
Mikilvægt er að stuðla að hagvexti og aukinni framleiðni með því að fjárfesta í mannauði, menntun, grunngerð samfélagsins og vinnumarkaðsaðgerðum sem tryggja öryggi launafólks. Öryggi og jafnvægi sem öflugt velferðarkerfi hefur í för með sér er forsenda þess að fólk fái notið efnislegra gæða og alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Réttarstaða einstaklinga á ekki að breytast við yfirfærslu verkefna til einkaaðila
Þrengingar í efnahagsmálum leggja auknar kröfur á herðar ríkinu að til sé öflugt öryggisnet sem tryggir að enginn verði skilinn út undan. Efnahagsþrengingarnar kalla á aukin afskipti hins opinbera á ýmsum sviðum. Nauðsynlegt er að stíga varlega til jarðar í því að fela einkaaðilum, sem hafa gróðann að leiðarljósi, að sinna þeirri grunnþjónustu sem ríkið hefur hingað til sinnt á sviði heilbrigðis- og félagsmála. Ungir jafnaðarmenn telja það vera grunnskilyrði að réttarstaða einstaklinga breytist ekki verði einkaaðilum falið að sinna þjónustunni. Í því felst að einkaaðilum verði ekki falin þjónusta sem hið opinbera hefur sinnt nema að skýrar reglur um opinbera þjónustu sem hafa þann tilgang að vernda réttaröryggi þeirra sem þiggja þjónustuna gildi áfram. Einnig þarf að tryggja að óháðir eftirlitsaðilar, svo sem. umboðsmaður Alþingis, geti áfram sinnt eftirliti með þjónustunni.

Ungir jafnaðarmenn vilja nýja seðlabankastjóra
Stöðugleiki í efnahagsmálum og heilbrigði markaða á að vera helsta markmið í stjórn efnahagsmála. Sjálfstæður faglegur seðlabanki sem er óháður stjórnvöldum gegnir þar mikilvægu hlutverki. Bankinn hefur mikil áhrif á efnahagslíf landsins og til þess að aðgerðir hans beri tilætlaðan árangur þarf bankinn njóta trausts markaða og allra hagsmunaaðila. Í dag standa mál þannig að Seðlabanka Íslands er rúinn trausti. Vaxtastefna hans hefur í meginatriðum brugðist og verðbólgumarkmið bankans hafa ekki náðst.  Eftir stendur íslenska þjóðin í verðbólgubáli, með háa stýrivexti og ónýtan gjaldmiðil – allt atriði sem Seðlabankinn á að hafa áhrif á og eru að sliga fjölskyldur og fyrirtæki í landinu.
Ungir jafnaðarmenn vilja að nýr seðlabankastjóra verði ráðinn til að endurheimta nauðsynlegan trúverðugleika bankans. Umbylta verður ráðningarferlinu. Þar verða fagleg sjónarmið að ráða för. Nauðsynlegt er að krefjast viðeigandi menntunar og reynslu eins og gert er í okkar samanburðarlöndum. Hætta verður að líta á Seðlabankann sem hvíldarheimili fyrir lífsþreytta stjórnmálamenn. Seðlabankinn þarfnast sárlega faglegrar stjórnunar sem er hafin yfir flokkapólitík og horfir hlutlaust á menn og málefni.

Ungir jafnaðarmenn vilja að björgunaraðgerðir á fjármálamarkaði miðist við hagsmuni almennings
Björgunaraðgerðir ríkisins á fjármálamörkuðum verða að vera í þágu fólksins í landinu. Höfuðáhersla skal lögð á að standa vörð um hagsmuni almennings við framkvæmd slíkra aðgerða. Almenningur í landinu hefur mátt þola nógu miklar þrengingar vegna þeirra glæfralegu fjárfestinga sem einkageirinn hefur staðið í.

Varðveisla stöðugleika í fjármálakerfinu er eitt mikilvægasta hlutverk ríkisins og Seðlabankans. Sértækar björgunaraðgerðir af hálfu hins opinbera geta átt rétt á sér ef ýtrasta nauðsyn krefur. Forgangsröðun og tilhögun slíkra aðgerða verður hins vegar að taka tillit til hagsmuna hins almenna borgara. Smáfyrirtæki munu mörg hver eiga erfitt uppdráttar vegna hárra vaxta og lánaþurrðar. Ekki má gleyma því að almenningur upplifir nú miklar þrengingar vegna hækkandi greiðslubyrði lána. Líta verður eftir hagsmunum þess fólks ekki síður en hinna stóru fyrirtækja.

Ofurlaun í fjármálageiranum hafa verið réttlætt með vísan til þeirrar áhættu sem stjórnendur taka í starfi. Mikilvægt er að bankamenn misbjóði ekki réttlætiskennd almennings með því að þiggja bónusa fyrir góða frammistöðu í bæði góðu jafnt sem slæmu árferði. Sýna verður í verki að tekin sé áhætta til góðs og ills en að ekki sé um samtryggingu bankastjórnenda að ræða.

Ungir jafnaðarmenn vilja breytt landbúnaðarkerfi
Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að ríkisstjórnin ráðist í uppstokkun á landbúnaðarkerfinu. Endurskoða þarf alla löggjöf varðandi tolla og vörugjöld með það að markmiði að draga úr þeim og stuðla þannig að lægra matvælaverði. Mikilvægt er að losa bændur og neytendur úr því miðstýrða landbúnaðarkerfi sem nú er við lýði. Gera þarf bændum kleift að selja afurðir sínar beint til neytenda og skapa þeim þannig betri samkeppnisstöðu þegar þeir selja afurðir sínar. Þá aukast möguleikar bænda á að framleiða fjölbreyttari og sérhæfðari afurðir.

Enda hafa Ungir jafnaðarmenn fulla trú á íslenskum bændum og afurðum þeirra og hæfni þeirra til að laga sig að breyttum aðstæðum.

Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar segir: „Unnið verði að endurskoðun landbúnaðarkerfisins með það fyrir augum að auka frelsi, bæta stöðu bænda og lækka verð til neytenda“. Sjálfstæðisflokkurinn, sem segist á hátíðisdögum vera boðberi frelsis (lesist: íhaldsflokkur), berst með ráðum og dáð gegn breytingum á kerfinu sem sést á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í málaflokknum. En það er einmitt íhaldsflokkurinn sem fer með völdin í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Ungir jafnaðarmenn leggja hart að ráðherrum og þingmönnum Samfylkingarinnar um að koma hreyfingu á þessu mál á komandi þingvetri, 2008-2009.

Ungir jafnaðarmenn vilja einfaldara greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu
Ungir jafnaðarmenn lýsa ánægju sinni með markmið ríkisstjórnarinnar um einföldun greiðsluþátttökukerfis ríkisins í heilbrigðiskostnaði almennings. Sú breyting sem er í undirbúningi á greiðsluþátttökukerfinu mun leysa af hólmi þungt og flókið kerfi. Norðurlöndin eru höfð til fyrirmyndar og markmiðið er að þeir sem eru lengur og oftar veikir borgi minna en þeir sem eru veikir sjaldnar og styttra. Einfaldara kerfi minnkar sóun í kerfinu og gerir fólki auðveldara að þekkja rétt og sækja rétt sinn til sjúkratrygginga. Ungir jafnaðarmenn munu fylgjast með útkomu þessarar vinnu til  að tryggja að hún verði í takti við jafnaðarstefnuna.

Ungir jafnaðarmenn vilja sterkari Lánasjóð íslenskra námsmanna
Forgangsmál Ungra jafnaðarmanna í málefnum LÍN er hækkun framfærslulána sjóðsins. Grunnframfærsla námslána fyrir einstakling í leiguhúsnæði endurspeglar á engan hátt raunverulega framfærsluþörf hans miðað við rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna. Framfærslan getur hæst numið 100.600 krónur á mánuði, en skerðist í hlutfalli við tekjur námsmannsins og er því sjaldnast svo há. Er hæsta mögulega framfærslan engu að síður mun lægri upphæð en námsmenn þurfa til að ná endum saman, miðað við fyrrgreinda rannsókn, og langt undir lágmarkslaunum í þessu þjóðfélagi. Nauðsynlegt er að leiðrétta það misræmi á milli grunnframfærslunnar og raunverulegrar framfærsluþarfar námsmanna.
Ungir jafnaðarmenn gera þá kröfu að námslánin haldi í við verðbólgu. Það er ekki raunin í dag, námslánin eru að lækka að raunvirði sökum þeirrar miklu verðbólgu sem er á Íslandi. Leiðrétta verður þessa kjaraskerðingu við gerð úthlutunarreglna LÍN fyrir skólaárið 2009-10.

Mikið óöryggi og álag fylgir núverandi fyrirkomulagi á greiðslu námslána fyrir námsmanninn og fjölskyldu hans, sökum þess að lánin eru grædd eftir á. Mikilvægt er að skoða kosti þess að hefja samtímagreiðslur námslána, til að sporna við óþörfum og ósanngjörnum vaxtakostnaði sem námsmenn sitja uppi með, auk þess sem fjárhagslegt óöryggi á námsárunum er síst til þess fallið að auka ásókn í nám á háskólastigi.
Ungir jafnaðarmenn vilja að 30 prósent námslánanna breytist í styrk að námi loknu. Það myndi hvetja fleiri til að ljúka háskólagráðu. Það myndi auk þess létta á fjárhagsáhyggjum námsmanns á námstíma og minnkar endurgreiðslubyrði lánanna.
Stefna skal að því að opna leiðir til auka lánsframboð á framhaldsskólastigi.

Ungir jafnaðarmenn vilja útrýma kynbundnum launamun og hækka laun kvennastétta
Ungir jafnaðarmenn lýsa þungum áhyggjum yfir því að óútskýrður, kynbundinn launamunur hafi aukist hjá ríkinu eins og nýleg könnun SFR bendir til. Í könnuninni kemur fram að óútskýrður, kynbundinn launamunur hjá ríkinu er 18 prósent og er hann því um það bil 10 prósent hærri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er óásættanlegt að ríkið greiði ekki sambærileg laun fyrir sambærileg störf. Auk þess að vera brot á lögum og stjórnarskrá dregur kynbundinn launamunur úr lífsgæðum hér á landi því framleiðni er minni þar sem kynjum er mismunað. Útrýming kynbundins launamunar er nauðsynlegur þáttur í því að tryggja betri lífskjör hjá almenningi í landinu.

Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og tryggi að stjórnendur ríkisstofnana fari að kröfum landslaga og stjórnarskrár um jafnrétti.. Þrátt fyrir að stigið hafi verið skref í rétta átt með nýjum kjarasamningi við ljósmæður er ljóst að margar kvennastéttir búa við það misrétti að menntun þeirra og reynsla er ekki metin til launa. Ríkisstjórnin á að sýna viljann í verki með því að tryggja nauðsynlegt fjármagn svo hægt sé að útrýma kynbundnum launamun hjá ríkinu.

Rannsóknir og kannanir sýna að aukin menntun kvenna og fjölgun þeirra í sérfræði- og stjórnunarstöðum skilar sér ekki í auknu launajafnrétti kynjanna heldur þvert á móti í vaxandi kynbundnum launamun. Mikilvægt er að ríkið beiti sér af fullum þunga að stöðva þá þróun og snúa henni við.

Ungir jafnaðarmenn skora á fjármálaráðuneytið, sem fer með starfsmannamál hjá ríkinu, að kanna og birta hvaða ríkisstofnanir láti kynbundinn launamunur viðgangast  og tryggja í kjölfarið að sá munur verði leiðréttur.

Ungir jafnaðarmenn vilja bættar aðstæður kvenfanga, strax
Það er staðreynd að kvenkyns fangar eru almennt verr staddir, bæði félagslega og heilsufarslega en karlar þegar þeir hefja afplánun. Þrátt fyrir þetta hefur ójafnrétti ríkt milli kynja í fangelsum landsins þar sem aðstæður karlanna hafa að mörgu leyti verið betri.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að kvenkyns fangar eru almennt afar líklegir til að hafa þolað kynferðislega misnotkun eða ofbeldi af hálfu sinna nánustu eða koma frá brotnum heimilum. Að auki eru þær líklegri til að upplifa einangrun í fangelsinu og þá sér í lagi þær sem eru mæður en um 70 prósent kvenfanga sem afplánað hafa á Íslandi, eiga börn.

Umbætur í málefnum kvenfanga hafa of lengi verið á dagskrá og ganga allt of hægt fyrir sig, eins og raunar umbætur í fangelsismálum almennt. Kópavogsfangelsi, eina kvennafangelsið hér á landi, er lélegt fangelsi. Þar eru litlir möguleikar á útivist, frístundum, vinnu eða öðru sem stuðlar að betrun manneskjunnar. Fangelsið var upphaflega hugsað sem skammtímafangelsi en er líka notað til langtímavistunar, sem það hentar alls ekki fyrir.

Kópavogsfangelsi þarf að leggja niður sem langtímaúrræði og búa til fleiri pláss annars staðar – nú þegar. Ungir jafnaðarmenn eru ánægðir með áætlanir um úrbætur og þau tvö pláss fyrir konur sem nú eru í opna fangelsinu á Kvíabryggju, en setja stórt spurningarmerki við það hvort farsælt sé að byggja upp kvennadeild á Litla-Hrauni. Litla-Hraun er öryggisfangelsi þar sem vistaðir eru hættulegustu fangarnir sem margir hverjir hafa beitt konur og börn ofbeldi. Sé sett upp kvennadeild þar þarf að tryggja að öll aðstaða kvennanna og meðferðarúrræði séu byggð fyrir þær sérstaklega og sé í engu lakari en það sem karlfangar búa við. Ungir jafnaðarmenn leggja þó áherslu á að frekar verði byggt sérstakt, nýtt kvennafangelsi sem sniðið væri að þörfum kvenfanga.

Ungir jafnaðarmenn vilja ein hjúskaparlög
Fólk á að hafa frelsi til að lifa því fjölskyldulífi sem það sjálft kýs. Íslenska ríkið á ekki að ákveða hvað geti talist æskileg fjölskylda eða gera upp á milli fjölskylduforma. Þess vegna eiga ein hjúskaparlög að gilda um alla sem ákveða að staðfesta samband sitt við maka. Kyn á þar ekki að skipta máli.

Ungir jafnaðarmenn vilja stórátak í réttindamálum og réttindagæslu fólks með fötlun
Allt of lengi hefur grundvallarmannréttindum fólks með fötlun ekki verið sinnt sem skyldi. Slík vanræksla samræmist ekki hugmyndafræði jafnaðarstefnunnar og er brýnt að ríkisstjórn sem Samfylkingin á aðild að geri úrbætur hið snarasta. Mannréttindi fatlaðra eru ekki málefni sem snerta eingöngu þröngan hóp einstaklinga, heldur er þetta mikilvægur málaflokkur fyrir fjölda aðstandenda og augljóst er að þetta aðgerðarleysi bitnar á endanum á samfélaginu öllu. Nú stendur fyrir dyrum að flytja málaflokkinn frá ríki til sveitarfélaga og í því breytingaferli gefst dýrmætt tækifæri til að bæta verulega réttindastöðu fólks með fötlun. Íslenska ríkið þarf að tryggja að alþjóðlegir samningar séu virtir hér á landi og væri eðlilegt fyrsta skref að stofna embætti umboðsmanns fólks með fötlun, eins og hagsmunasamtök hafa bent á, til að mynda Landssamtökin Þroskahjálp.

Ungir jafnaðarmenn vilja sterkari aðgerðir gegn mansali
Ungir jafnaðarmenn telja að grípa þurfi til sterkari aðgerða gegn mansali og að Ísland beiti sér af meiri krafti í alþjóðlegu samstarfi gegn því. Sterkur grunur hefur vaknað um að Ísland sé  notað sem viðkomustaður þegar fórnarlömb mansals eru flutt frá Evrópu til Norður-Ameríku og að hingað hafi konur verið seldar mansali í kynlífsþjónustu.

Ungir jafnaðarmenn leggjast gegn klámiðnaði hér á landi sem sannað er að byggir á sömu lögmálum og mansal, það er að stúlkur frá fátækari löndum eru fluttar hingað til lands til starfa í kynlífsþjónustu og því er verið að nýta bágar aðstæður þeirra.

Ungir jafnaðarmenn telja að rannsaka þurfi betur mansal hér á landi en félagasamtök og stofnanir sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi og aðstoða þolendur ofbeldis hafa orðið áþreifanlega varar við mansal og tekið á slíkum tilfellum.

Ungir jafnaðarmenn fagna gerð aðgerðaáætlunar gegn mansali sem starfshópur á vegum félags- og tryggingamálaráðherra vinnur að en telja brýnt að Ísland fullgildi samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og bókun við Palermo-samninginn frá 15. nóvember 2000 um að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn.

Ungir jafnaðarmenn vilja upplýsingavettvang sem höfðar sérstaklega til ungs fólks af erlendum uppruna.
Að vera ungur og að mótast er erfiður tími fyrir alla, þá sérstaklega í ókunnugu landi og nýrri menningu. Ungt fólk af erlendum uppruna á oft í erfiðleikum með að finna sinn sess í samfélaginu. Ein af ástæðunum fyrir því er upplýsingaskortur. Mikil vöntun er á því að unga fólkið geti nálgast upplýsingar á einum stað er varða möguleika þeirra í atvinnulífinu, félagsmálum og jafnvel stjórnmálum, auk lagalegra réttinda.
Ungir jafnaðarmenn vilja að komið verði á rafrænum vettvangi þar sem allar helstu upplýsingar er að finna. Þar væri einnig hægt að skiptast á skoðunum og miðla reynslu manna á milli í sömu sporum.

Ungir jafnaðarmenn vilja gera kaup á vændi refsiverð
Ungir jafnaðarmenn hvetja stjórnvöld til að innleiða ,,sænsku leiðina” í baráttunni gegn útbreiðslu vændis og mansals. Með sænsku leiðinni er refsiábyrgðin færð frá seljanda vændis til kaupanda og þannig ráðist beint að rótum eftirspurnar eftir vændi. Svíar líta á vændi sem kynbundið ofbeldi sem eigi ekki heima í samfélagi sem byggir á jafnrétti. Ungir jafnaðarmenn taka undir með frændum sínum Svíum að kynlíf eigi ekki að vera söluvara. Norðmenn innleiða nú sams konar löggjöf og Svíar, enda hefur hún skilað gríðarlega góðum árangri á þeim níu árum síðan hún var innleidd. Samhliða löggjöfinni hafa Svíar boðið upp á aðstoð fyrir vændiskonur sem vilja snúa blaðinu við og finna leið út úr vændisiðnaðinum. Ungir jafnaðarmenn hvetja stjórnvöld til að fylgja fordæmi nágrannaríkjanna