Umhverfis- og atvinnumál

Ungt fólk þarf atvinnu

Stjórnvöld þurfa að leggja fram raunhæfa áætlun um að virkja ungt fólk til atvinnu. Bæði ríki og sveitarfélög, sem og Vinnumálastofnun, þurfa að taka saman höndum og vinna að úrræðum til að fá ungt fólk út á vinnumarkaðinn.

Atvinna er samtvinnuð efnahagslífi þjóðfélagsins og félagslegum stöðugleika landsins, en að koma í veg fyrir atvinnuleysi þýðir að ná föstum tökum á framangreindu.

Stjórnvöld verða að hafa í huga að mikilvægasta mál dagsins í dag er að koma í veg fyrir atvinnuleysi ungs fólks. Það þarf að skapa störf sem og að koma í veg fyrir að lægstu launin séu það lá að þau samsvari atvinnuleysisbótum. Á sama tíma þarf að grípa til atgervisflótt ungs menntafólks úr landi, sem er einmitt kynslóðin sem er nauðsynlegt að fá til aðkomu að uppbyggingu betra lands.

Þá þarf að koma í veg fyrir að ungt fólk geti stundað bótasvik og unnið svarta vinnu.

Sjálfbær og náttúruvæn atvinna

Ungir jafnaðarmenn vilja byggja upp atvinnuvegi sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið! Allt er vænt sem vel er grænt. Þá er mikilvægt að leggja áherslu á fjölbreytt atvinnuumhverfi.

Ísland hefur ennþá gott orð á sér fyrir skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og nærgætni í umgengni við náttúruna. Það orðspor ber að vernda og styrkja svo atvinnulífið geti byggt á þeirri ímynd til framtíðar.

Þarfir hagkerfisins fyrir fjölbreyttari og styrkari stoðir rímar vel við ákall um uppbyggingu hins græna hagkerfis. Ísland á að vera í fararbroddi ríkja í þróun vistvænna orkugjafa. Þá ætti að notfæra til hins ýtrasta þau tækifæri sem gefast við undirritun loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna til að byggja upp atvinnustarfsemi í anda sáttmálans.

Ungir jafnaðarmenn vilja Ísland sem vísindasamfélag

Ungir jafnaðarmenn telja að standa þurfi betur að uppbyggingu starfa svo mannauður fái notið sín. Ungir jafnaðarmenn sætta sig ekki við annað en að allir fái að njóta sín á þessu litla landi.

Fjölbreytt störf í vísindum, rannsóknum og frumkvöðla starfsemi nauðsynleg til að Ísland verði samkeppnishæft á erlendri grundu. Íslendingar ættu að opna dyr sínar fyrir erlendum mannauð sem auðga mun íslenskt atvinnu- og vísindalíf.

Mikil tækifæri eru í því að gera Ísland að þekkingar- og vísindasamfélagi. Skapa þarf skilyrði fyrir bæði erlendra og innlendar fjárfestingar í nýsköpun ásamt góðu rekstrarumhverfi fyrir sprotafyrirtæki. Það gerum við meðal annars með fyrirsjáanlegu og stöðugu skattaumhverfi.

Mikilvægt er að iðnfyrirtæki sem hér starfa leitist við að auka virði framleiðslu sinnar. Sérstaklega má benda á það gríðarmikla magn óverkaðs áls sem fer úr landi á ári hverju. Erlendu ál risarnir stunda hvorki grunnrannsóknir í málmvinnslu né vinna áfram vörur úr því áli sem hér er framleitt. Þessi vandamál eru okkur Íslendingum allt of kunn úr fiskvinnslunni þar sem skortur á virðisauka var um langt skeið vandamál.

Ungir jafnaðarmenn vilja að íslenskaríkið sýni ákveðið siðferði og berjist gegn vaxandi vandamáli sem atgervisflótti er og gangi fram með góðu fordæmi.

Ungir jafnaðarmenn vilja breytt landbúnaðarkerfi

Ungir Jafnaðarmenn hafa fulla trú á íslenskum bændum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að ríkisstjórnin ráðist í uppstokkun á landbúnaðarkerfinu. Endurskoða þarf alla löggjöf varðandi tolla og vörugjöld með það að markmiði að draga úr þeim og stuðla þannig að lægra matvælaverði. Mikilvægt er að losa bændur og neytendur úr því miðstýrða landbúnaðarkerfi sem nú er við lýði. Gera þarf bændum kleift að selja afurðir sínar beint til neytenda og skapa þeim þannig betri samkeppnisstöðu þegar þeir selja afurðir sínar. Þá aukast möguleikar bænda á að framleiða fjölbreyttari og sérhæfðari afurðir.

Ungir jafnaðarmenn fulla trú á íslenskum bændum, afurðum þeirra og hæfni þeirra til að laga sig að breyttum aðstæðum.

Auðlindir

Ungir Jafnaðarmenn telja að við útdeilingu nýtingarréttar takmarkaðra auðlinda á sjó, neðanjarðar og ofanjarðar ætti að hafa samræmda löggjöf. Byggja skal á kerfi sem tryggir að einkaaðilar sjái sér vel fært að annast úrvinnslu auðlinda. Úthlutun nýtingarréttar skal þó vera í höndum ríkisins, þannig að Alþingi setji lög með hlutlægum viðmiðum sem framkvæmdavaldið ber að fara eftir við úthlutun þeirra gæða sem í nýtingaréttinum felst. Við það skuli miðað að ríkið geti innheimt sanngjarnt gjald fyrir not á auðlindum landsins, þannig að allir hagnist af nýtingu þeirra, án þess að gengið sé að rétt komandi kynslóða til að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða.

Ungir jafnaðarmenn telja að tillaga sjávarútvegsráðherra að breyttu fiskveiðistjórnunar kerfi uppfylli ekki þessi sjónarmið. Í frumvarpinu er miðað of mikið við huglægt mat ráðherra við úthlutun aflaheimilda. Gæta þarf betur að byggðasjónarmiðum við breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu en lagt er til í frumvarpinu. Ungir Jafnaðarmenn hvetja ríkisstjórnina og Alþingi til að standa við kosningarloforð og stjórnarsáttmálann sem gengur mun lengra en frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ungir jafnaðarmenn vilja erlenda fjárfestingu á Íslandi. Ekki skal mæta útlendingum sem vilja leggja okkur lið við uppbyggingu hér á landi með tortryggni og fordómum. Það skal þó vera þannig að sömu reglur skuli gilda um alla, og allir sem vilja stunda atvinnurekstur hér á landi skuli virða sömu lögin. Stjórnvöld verða gæta jafnræðis hvort heldur sem erlendan eða innlendan aðila er að ræða. Þannig eiga erlend stórfyrirtæki ekki að fá sérstaka fyrirgreiðslu varðandi skattgreiðslur.

Ungir jafnaðarmenn vilja að jarðalög verði endurskoðuð á þann hátt að sú staða gæti ekki komið upp að einhver einn aðili gæti eignast allt eignarland í landinu, án þess að nokkru verði við ráðið.

Umhverfismál

Náttúra Íslands er það dýrmætasta sem við eigum og ber því að fara með náttúru landsins samkvæmt því. Stuðla þarf að hugarfarsbreytingu hjá almenning varðandi umgengni við náttúruna og lykilatriði í umhverfismálum er að stuðla að sjálfbærni hennar.

Í því felst að vernda hana fyrir ágangi iðnaðar, ferðamanna og annarra þátta hvort sem í lofti, láði og legi. Á sama tíma verður að virða rétt landsmanna til að njóta ferðafrelsis, innan þeirra marka sem náttúruvernd krefst.

Utanríkismál

Ungir Jafnaðarmenn styðja aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Ungir Jafnaðarmenn krefjast þess að haldið verið áfram með samningaviðræður um aðild að Evrópusambandinu. Ísland á að vera opið og frjálst þekkingarsamfélag án fordóma, þjóð meðal annarra þjóða. Ungir jafnaðarmenn telja það vera skyldu stjórnvalda og þingmanna að halda áfram að hugsa um heildarhag Íslands og almennings, en hluti af því er að klára aðildarviðræður við Evrópusambandi og leggja fyrir almenning samning sem ungt fólk getur fellt sér við.

Ungt fólk þarf að byggja þetta land til framtíðar. Krafa Ungra jafnaðarmanna er að stöðuleiki sé í ríkisfjármálum og hagsæld landsins sé tryggð í framtíðinni. Af þeim ástæðum er nauðsynlegt að huga að því að taka upp stöðugan gjaldmiðil m.a. til að atvinnulíf hér geti blómstrað, eins og öll tækifæri eru til.

Ungir jafnaðarmenn vilja búa í opnum og frjálsum heimi.

Ungir jafnaðarmenn vilja búa í opnum og frjálsum heimi og hafna á sama tíma tortryggnis- og einangrunnar stefnu hvers konar. Mikilvægur hluti af þessari hugsjón er að viðskipti og fólksflutningar milli landa sé frjáls, þannig að íbúar allra landa geti í sameiningu unnið að bættum lífskjörum heildarinnar. Ungir jafnaðarmenn vilja að eftir hugsanlega inngöngu að Evrópusambandinu vinni íslensk stjórnvöld að því að sambandið opni frekar á viðskipti við ríki Afríku, svo almenningur í þeim ríkjum fái að selja vörur sínar til Evrópu, báðum aðilum til hagsbóta.

Ungir jafnaðarmenn eru bjartsýnir á að aðildarsamningur Íslands við Evrópusambandið muni vera báðum aðilum hagstæður. Gríðarlegir hagsmunir eru fólgnir í því fyrir ungt fólk á Íslandi að geta unnið og stundað nám í Evrópu, auk þess sem aðkoma íbúa annarra Evrópuríkja að íslensku atvinnulífi getur aðeins styrkt það, þegar til lengri tíma er litið.

Ungir jafnaðarmenn vilja frjálsa, sjálfstæða Palestínu.

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að íslensk stjórnvöld viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt ríki. Ungir jafnaðarmenn fordæma afstöðu Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem þeir eru að beita neitunarvaldi sínu í 33. skipti gegn Palestínsku-þjóðinni.

Ungir jafnaðarmenn treysta að gripið verði til aðgerða í málefnum Palestínu og að utanríkisráðherra Íslands haldi áfram baráttu sinni.

Ungir jafnaðarmenn vilja frjálst, sjálfstætt Vestur Sahara.

Ungir jafnaðarmenn vilja að Utanríkisráðherra ræði málefni Vestur-Sahara á opinberum vettvangi og hvetja íslensk stjórnvöld til að ræða þetta í hvert skiptir sem farið er á fund erlendra þjóða sem að málinu koma og á fundum Evrópusambandsins.

Mennta- og velferðarmál

Jafnt aðgengi

Ungir jafnaðarmenn vilja aðgengi allra að menntun óháð öllum höftum svo, sem vegna búsetu eða fötlunar.

Ungir jafnaðarmenn leggja áherslu á mikilvægi leikskólans.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið sem öll börn eiga rétt á að njóta. Metnaðarfullt starf í leikskólum er ómetanlegur stuðningur við það uppeldi sem foreldrar og fjölskyldur veita börnum sínum heima fyrir. Starfið sem fram fer í leikskólunum er mjög mikilvægt og oft vanmetið. Það leggur grunninn að framtíð barnanna. Ungir jafnaðarmenn vilja að öll börn eigi jafnan rétt á að sækja leikskóla og að hann fullnægi þörfum allra barna.

Ungir jafnaðarmenn vilja auka vægi list og verknáms í grunnskólum.

Gera þarf námið fjölbreyttara og þannig úr garði gert að fleiri finni sig innan veggja skólann.Ungir jafnaðarmenn leggjast alfarið gegn afnámi skólaskyldu. Mikilvægi skólans í félagslegu uppeldi er grundvallaratriði í samfélagi okkar.

Málefni háskólastigsins

Ungir jafnaðarmenn harma hægagang við endurskoðun á rekstri og fjármögnun háskólastigsins. Það er afar brýnt að fé úr sjóðum almennings sé nýtt á þann hátt að sem flestir fái menntun sem hentar einstaklingunum og uppfylli þarfir samfélagsins. Eins og háskólakerfið er rekið í dag er um að ræða margar rekstrareiningar, og stærsti hluti þeirra einbeitir sér að þörfum afmarkaðs hluta atvinnulífsins. Leggja verður áherslu á að fjármunum sé dreift á þann hátt, að aukin áhersla verði lögð á þau svið þar sem sóknartækifæri íslensks atvinnulífs liggja, svo sem raun- og tæknigreinar. Eins og rekstrarumhverfi háskólanna er í dag gefst þeim ekki tækifæri á að sinna þessum sviðum, því þeir neyðast til að leggja æ meira fjármagn í þeim greinum sem samkeppni ríkir um að draga sem flesta nemendur til sín, svo sem lögfræði og viðskiptafræði.

Fjármögnun skólakerfisins

Ungir jafnaðarmenn vilja að við frá framlögum hins opinberra til einkaskóla verði dregin sú upphæð sem nemandinn greiðir til skólans. Ungir jafnaðarmenn telja mikilvægt að nemendur og skólar njóti jafnræðis við fjármögnun menntunar á öllum skólastigum. Þannig er óþolandi að sumum notendum sé gert að greiða með sér háar fjárhæðir á meðan skólinn sem þau sækja nýtur jafnhárra opinberra framlaga og skólar sem ekki innheimta skólagjöld. Þannig hefur skapast mismunun í garð opinberra menntastofnanna, sem mun versna ef ekkert verður að gert.

Framhaldsskólinn

Ungir jafnaðarmenn hafna hverfaskiptingu framhaldsskólanna. Fjölbreytni framhaldsskólanna er ekki nýtt sem skildi og ætti frekar að stefna að enn frekari sérhæfingu á framhaldskólastig. Bæði í kennsluformi og námsframboði.

Ungir jafnaðarmenn vilja að leitað verði leiða til að hið opinbera sjái framhaldsskólanemum fyrir námsefni og nemendur þurfi ekki að leggja fram fé til efniskostnaðar vegna náms síns.

Óformleg nám til jafns við formlegt

Ungir jafnaðarmenn vilja að tekið sé aukið tillit til félagslegrar þátttöku og að sú mikilvæga óformlega menntun sem fram fer með þáttöku í lýðræðislegu starfi félagasamtaka og önnur sjálfboðavinna fái tilhlýðilega viðurkenningu í skólakerfinu.

Endurskoðun LÍN

Ungir jafnaðarmenn vilja að framfærslulán LÍN verði jafn há eða hærri en atvinnuleysisbætur svo fólk hafi hvatningu til að hefja nám. Ungir jafnaðarmenn vilja að námslánakerfinu verði breytt á þann hátt að hluta lána verði breytt í styrk ef lánþegi klárar námið sitt innan tilskilins tíma.

Húsnæðismál

Ungir jafnaðarmenn krefjast þess að húsaleigu- og vaxtabætur verði jafnaðar strax. Gera þarf leiguhúsnæði að raunhæfum valkosti, enda er hefur hin svokallaða séreignastefna margsýnt sig að vera byrgði á einstaklinga og fjölskyldur. Vinnumarkaður dagsins í dag og framtíðarinnar gerir aukna kröfu um sveigjanleika og því þarf sveigjanlegjan leigumarkað, þar sem réttur leigjenda tryggður.

Skuldaniðurfellingar gagnist ungu fólki en ekki bara hinum eldri.

Nauðsynlegt er að gefa gaum þeim fjölda ungs fólks sem situr í skulda vöfnu íbúðarhúsnæði. Á þeim árum sem húsnæðisverð hækkaði sem mest keypti fjöldi ungs fólks sína fyrstu íbúð. Matsverð eignanna hækkaði lítið og seint í samanburði við markaðsverð. Ungt fólk á sjaldnast mikið sparifé til íbúðakaupa enda nýkomið á vinnumarkað. Neyðarráð flestra var að fá lánað veð í eignum foreldra eða jafnvel öfum og ömmum. Allt þetta fólk fellur út fyrir hina svokölluðu 110% leið í skuldaniðurfellingum. Það kerfi sem var og er við lýði gefur ekki svigrúm til annars en að fjárfesta í eigin húsnæði. Annað getur vart talist tryggt húsnæði og því var þessum hóp nauðugur einn kostur að steypa sér í skuldir sem síðar hafa stökkbreyst að vöxtum.

Velferðarmál

Ungir jafnaðarmenn telja að gjaldfrjálsar tannlækningar til 18 ára aldurs séu mikilvægar samfélaginu þar sem slæm tannheilsa er sívaxandi vandamál. Við höfnum því að tannheilsa sé munaðarvara efnameira fólks.

Ungir jafnaðarmenn vilja einstaklingsmiðaða aðstoð þar sem geta og virðing einstaklingsins er í forgrunni. Réttur fatlaðra til virkrar þátttöku í samfélaginu eru sjálfsögð mannréttindi fyrir utan að gera samfélagið betra fyrir okkur öll. Félagsleg einangrun fólks sökum fötlunar er skömm og blettur á íslenskt samfélag.

Ungir jafnaðarmenn vilja stytta biðlista eftir þjónustu fyrir börn og telja það skömm fyrir fyrstu hreinu velferðarríkisstjórnarinnar að biðlistar finnist á jafn mikilvægri stofnun og BUGL. Ungir jafnaðarmenn vilja þó árétta andstöðu sína við miðlægar stórar stofnanir.

Mikilvægt er að í öllum öngum velferðarkerfisins sé litið á einstaklinginn heilstætt og unnið með hann í hans umhverfi.

Ungir jafnaðarmenn fagna flutningi velferðarmála til sveitarfélaganna.