Lýðræði

Við vitum að heilbrigðiskerfið á Íslandi styður vel við bakið á verðandi mæðrum. Má þar nefna meðgöngueftirlit og fría þjónustu á sjúkrahúsi við fæðingu og einnig að henni lokinni. Ungbarnaeftirlit hér á landi er með því besta sem gerist. Þeir sem fara í tækni- og glasafrjóvganir fá þann kostnað greiddan að hluta. Þær konur sem geta ekki orðið þungaðar nýta sér augljóslega ekki þessa þjónustu og ættu að mínu mati að fá þá styrk til ættleiðingar. Lýðræði þykir í dag sjálfsagt stjórnarform og leið til að almenningur eigi hlutdeild í þeim ákvörðunum sem að hafa áhrif á þá hvern dag. Þetta er hins vegar hugtak sem er ansi erfitt að útskýra. Í mínum huga felur lýðræði í sér að vald stjórnvalda sé sótt til almennings, þeirra sem að lúta stjórn og þurfa að hlýða boðum og bönnum valdhafanna. Einmitt vegna þess að einstaklingar gefa frá sér ýmis réttindi til stjórnvalda tel ég þetta mjög mikilvægt. Lýðræði vísar einnig til ýmissa hluta sem að í dag teljast sjálfsagðir á vesturlöndum, eins og kosningar, löggjafarþing, frjálsir fjölmiðlar, eftirlitsstofnanir og margt fleira. Sumir gætu fallist á að lýðræði ganga út á það eitt að almenningur hafi tækifæri til að sýna í verki skoðun sína á verkum stjórnvalda með því að skipta um ríkisstjórn og gætu jafnvel sagt að þetta sé það sem skipti mestu máli. Í mínum huga er lýðræði hins vegar mun flóknara en svo og mun huglægara hugtak en svo. Lýðræði felur þannig í sér að ákvarðanir séu teknar á grundvelli góðra stjórnarhátta, þar sem ekki er reynt að valta yfir stóran hluta almennings.

Það er einnig hægt að tala um lýðræði sem hugsjón. Hins vegar er erfiðara að benda á hugsjón sem fyrirbæri sem að hægt er að reiða fingur á, hvað þá breiða út. Hugsjónin mótast af menningu og gildismati samfélagsins, en menning og gildismat í öðrum heimshlutum er hins vegar ólík því sem finnst á vesturlöndum. Nýverið var birt í breska tímaritinu New Statesman umfjöllun um Indland, sem er af mörgum talið á hraðri leið með að ná yfirburðastöðu hvað varðar efnahagslega hagsæld. Í einni greininni sem að birtist var viðrað sjónarhorn eins innfædds Indverja sem að taldi að lýðræðið væri í raun dragbítur á þróun landsins; ef að ekki væri til staðar lýðræði væri mun auðveldara að nútímavæða til sveita og svo framvegis. Þetta sýnir í hnotskurn hversu tengd lýðræðishugsjónin er sögu og menningu. Ég gæti varla hugsað mér að búa í landi þar sem stjórnvöld tækju ákvarðanir byggðar á einhverjum óljósum heildarhagsmunum sem að ég gæti ekki haft nein áhrif á. Indverjanum fannst það hins vegar sjálfsagt mál.

Hins vegar eru ýmsar þversagnir í viðhorfum Vesturlandabúa til lýðræðis. Sumir telja að lýðræði sé í reynd lausnin á vandamálum þeirra landa sem að talin eru standa Vesturlöndum í vegi í þróun. Það séu slæmir stjórnarhættir sem eru rót vandans. Það gleymist þó að það er ekki langt síðan að Bandaríkin, sem stundum eru nefnd helsta lýðræðisríki heims, stunduðu valdarán í ýmsum heimshlutum vegna þess að aðgerðir stjórnvalda voru ekki talinn samræmast hagsmunum þeirra. Skipti þá engu hvort að um væri að ræða lýðræðislega kjörin stjórnvöld eður ei. Að sama skapi var það algengt að vestræn stjórnvöld, og þá einna helst bandarísk, styddu við bakið á alræðisstjórnum ef það var talið þjóna ríkjandi hagsmunum. Sem dæmi um þetta má nefna valdarán sem bandarísk stjórnvöld stóðu fyrir í Chile upp úr 1970, þegar Salvador Allende var steypt af stóli í uppreisn hersins, fyrir tilstuðlan Bandaríkjanna. Allende, sem var kommúnisti, hafði komist til valda í lýðræðislegum kosningum, en honum var skipt út fyrir Pinochet hershöfðingja, sem stjórnaði landinu með herstjórn allt fram á níunda áratuginn, þar til hann féllst á að leyfa kosningar. Flestir muna eftir Pinochet þegar að hann var handtekinn í London og ákærður fyrir stríðsglæpi. Þetta er lýsandi dæmi um afskipti Vestrænna ríkja af stjórnarfari annara heimshluta.

Í dag er lýðræði hins vegar talið allra meina bót, og er sú trú svo sterk að íslensk stjórnvöld studdu innrás Breta og Bandaríkjamanna í Írak til þess að koma þar frá einræðisherra, sem, nota bene, var studdur með ráði og dáði þegar að hann komst til valda. Annað dæmi um tvískinnung eru viðbrögð Bandaríkjanna og Evrópusambandsins við úrslitum nýafstaðinna þingkosninga á herteknum svæðum Palestínu. Eftir að talið hafði verið úr kjörkössunum kom í ljós að öfgasamtökin Hamas voru afgerandi sigurvegari. Þá var nú hugsjónin um lýðræði fljót að hverfa. Bandaríkjamenn og Evrópusambandið hótuðu t.a.m. að skera á alla aðstoð við palestínsku heimastjórnina, sem að hafði það eitt gert að láta vilja almennings koma í ljós á lýðræðislegan hátt, líkt og við teljum flest sjálfsagðan hlut.

Það virðist því skipta máli hver á í hlut þegar rætt lýðræði á í hlut. En þá hlýtur sú spurning að vakna; hvernig í ósköpunum á að breiða út lýðræði þegar þannig er í pottinn búinn?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand