Fjársvelti í heimsfaraldri

Yfirlýsing Ungra jafnaðarmanna um stöðu heilbrigðiskerfisins á tímum COVID-19

Ungir jafnaðarmenn skora á þingmenn allra stjórnmálaflokka að sameinast tafarlaust um markvissar aðgerðir til að verja heilbrigðiskerfið og hindra að þjónusta við sjúklinga verði skert með stífum aðhaldskröfum á tímum heimsfaraldurs. 

Síðastliðnar vikur hefur COVID-19 herjað þungt á heilbrigðiskerfið með þeim afleiðingum að Landspítali var færður á neyðarstig. Hópsýking á Landakoti hefur verið miðpunktur athyglinnar og skýrsla gæða- og sýkingavarnadeildar Landspítalans um hópsýkinguna hefur varpað ljósi á þróun mála. Í henni kemur fram að samverkandi þættir tengdir aðstæðum og aðbúnaði, þar með talið húsnæði og mönnun, hafi átt hlut að máli. Umræða af þessu tagi um aðstöðu og aðbúnað á Landspítala er svo sannarlega ekki ný af nálinni og við umfjöllun um skýrsluna hefur langtímafjármögnun heilbrigðiskerfisins borið á góma. Eins og Alma Möller landlæknir benti á 12. nóvember síðastliðinn hefur COVID-19 dregið fram styrkleika og veikleika heilbrigðiskerfisins. Veikleikarnir hafa lengi verið þekktir. Húsnæðið er úrelt og plássleysið viðvarandi enda hefur biðin eftir nýjum spítala staðið yfir í meira en tvo áratugi. Nú loks hefur bygging Landspítala verið sett í forgang en þó með þeim vanköntum að ákveðnar deildir hafa orðið útundan í fyrirhugaðri uppbyggingu. Á meðan er reynt að plástra opin sár Landspítalans sem horfir fram á 4,3 milljarða króna „hagræðingarkröfu“ næsta árið. Kröfu sem mun, ef haldið til streitu, koma til með að skerða sjúkrahússþjónustu og torvelda styttingu biðlista eftir heilbrigðisþjónustu sem hafa orðið til vegna kórónuveirufaraldursins.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur fram að íslenska heilbrigðiskerfið eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum, sem og að allir landsmenn eigi að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. Í nýjustu skýrslu OECD um fjármögnun heilbrigðiskerfa, ,,Health at a Glance 2020”, kemur fram að Ísland varði um 7,3% af vergri landsframleiðslu í opinbera heilbrigðisþjónustu árið 2019 sem er um tveimur prósentustigum lægra en hlutfall Svíþjóðar og Noregs. Fjármögnun er síður en svo eini mælikvarðinn á hvar Ísland stendur samanborið við önnur lönd en það getur gefið vísbendingu um að spýta þurfi í lófana og auka fjárveitingar til opinbera kerfisins með gæði þjónustunnar í fyrirrúmi. Heilbrigðiskerfið hefur verið undirfjármagnað allt frá því fyrir hrun. Ljóst er að viðhaldsskuldin sem verður til þegar „hagrætt“ er með frestun á viðhaldi húsnæðis og búnaðar hefur alvarlegar og langvarandi afleiðingar í för með sér. 

Ungir jafnaðarmenn vilja að á Íslandi sé rekið öflugt opinbert heilbrigðiskerfi sem veitir landsmönnum gæðaþjónustu óháð efnahag og búsetu, kerfi þar sem heilbrigðisstarfsfólk sér sig ekki knúið til að lýsa yfir hættuástandi á bráðamóttöku eða legudeildum Landspítalans með reglulegu millibili. Innan þeirrar framtíðarsýnar rúmast ekki vanræksla og skemmdarverk á hinu opinbera kerfi í skjóli nýfrjálshyggju Sjálfstæðisflokksins. Þar rúmast ekki heldur hugmyndir um tilslakanir á árangursríkum sóttvarnaraðgerðum sem gætu falið í sér að heilbrigðisstarfsfólk þurfi að neita  bráðveikum einstaklingum um öndunarvélar eins og sést hefur víða erlendis þar sem brugðist var seint og illa við faraldrinum. 

Í COVID-19 faraldrinum sem ríður nú yfir skora Ungir jafnaðarmenn á stjórnarflokkana og alla flokka á Alþingi að standa vörð um opinbera heilbrigðiskerfið, sjá til þess að hraða megi nauðsynlegum framkvæmdum frekar en fresta þeim og að ráðist verði í kraftmiklar aðgerðir til að laða faglært fólk til starfa. Þá skora Ungir jafnaðarmenn á forystu og flokksstofnanir Sjálfstæðisflokksins að taka skýra og afgerandi afstöðu gegn málflutningi þingmanna flokksins sem kalla eftir því að lífi og heilsu fólks verði fórnað og veirunni gefinn laus taumurinn.